138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra jákvæðar undirtektir við þessa hugmynd. Ég vildi gjarnan að hún yrði rædd í hörgul.

Hæstv. ráðherra kom í ræðu sinni inn á landsdóm. Hún sagðist hafa lagt til hér í eina tíð, og það er rétt, að leggja hann af og að mál gegn ráðherrum sem öðrum borgurum landsins fari fyrir venjulega dómstóla. Ég vil spyrja hana hvort hún telji að sú þróun sem orðið hefur í mannréttindahugsun í heiminum og þær hugmyndir sem menn hafa um réttarríkið, sem hafa verið að breytast á undanförnum áratugum, hafi gert það að verkum að landsdómur sé úreltur. Ég spyr líka hvort rétt sé að nota hann við núverandi aðstæður til að dæma ef hæstv. forsætisráðherra er í sjálfu sér á móti landsdómi.