138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:56]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni áðan varðandi þau erfiðu mál sem fram undan eru hér í þinginu að nú þyrfti að gera það sem væri rétt og það sem væri skýrt. Það er auðvitað grundvallaratriði að gera það sem er rétt í þessu máli. Ákvarðanir um ákæru verða eingöngu byggðar á lögum, ekki pólitík.

Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, var flutningsmaður frumvarps um rannsóknarnefndina. Getur hann staðfest að þar hafi verið ákveðið sérstaklega að veita nefndinni ríkar heimildir til að fá upplýsingar frá einstaklingum til að leita sannleikans, enda skyldi sú rannsókn sem slík ekki verða grundvöllur sakamáls? Getur hæstv. fjármálaráðherra staðfest að þetta hafi verið skilningur þeirra sem lögðu fram viðkomandi frumvarp haustið 2008?