138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það eru liðin tvö ár síðan gríðarlegt hrun átti sér stað í íslensku samfélagi og í dag búum við við fordæmalausar aðstæður í samfélagi sem hefur gjörbreyst á örstuttum tíma.

Íslensk þjóð lenti ekki einungis í efnahagslegu hruni heldur líka siðferðilegu hruni. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson rifjaði það upp, sem er rétt, að Framsóknarflokkurinn studdi nýja ríkisstjórn í ársbyrjun árið 2009 gegn vantrausti hér á þingi án þess þó vera í henni. Það var ekki að ástæðulausu. Traust á íslensku samfélagi, traust á Alþingi Íslendinga, eftirlitsstofnunum, ríkisstjórn og ráðuneytum var ekki neitt. Ég trúi ekki að menn hafi gleymt í hvaða andrúmi við lifðum. Þetta var heiðarlegt tilboð Framsóknarflokksins og heiðarleg tilraun til þess að koma á sátt í íslensku samfélagi.

Í kjölfar hrunsins var stofnuð óháð rannsóknarnefnd. Margar efasemdaraddir vöknuðu í samfélaginu um að slík nefnd mundi aðeins verða enn einn kattarþvotturinn en svo reyndist ekki vera. Framúrskarandi skýrsla sem við lásum og maður rak upp stór augu á hverri blaðsíðu. Ég get ekki sagt að í kjölfar skýrslunnar hafi traust á íslensku samfélagi aukist vegna þess að þar birtist okkur sannleikur sem maður trúði varla.

Það merkilega var við lestur skýrslunnar og niðurstöðuna að af þeim tugum einstaklinga sem komu á fund rannsóknarnefndarinnar, og viðtal var tekið við, treysti enginn sér til þess eða vildi bera ábyrgð á efnahagshruninu, enginn, ekki einn maður. Við þetta er ekki hægt að búa. Í framhaldinu var ákveðið á vettvangi þingsins að stofna þingmannanefnd til þess að fara yfir skýrsluna, draga saman lykilatriði hennar og sjá hvaða lærdóm við gætum dregið af atburðunum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi á undanförnum árum.

Eftir að hafa lesið skýrslu nefndarinnar vil ég þakka hv. nefndarmönnum þingmannanefndarinnar fyrir mikið og óeigingjarnt starf og að mörgu leyti glæsilegt starf. Ég tel að fólkið sem sat í nefndinni hafi sýnt mikið hugrekki. Þarna er snert á málum sem mörg hver eru óþægileg. Eins og fram hefur komið í umræðu í samfélaginu og innan þings á síðustu dögum eru þessi mál líka mjög persónuleg fyrir viðkomandi þingmenn og reyndar alla þingmenn. Þingmenn hafa verið settir í aðstöðu sem ég held að enginn óski sér að lenda í, þ.e. að þurfa að komast að niðurstöðu um störf fyrrum félaga og vina sem þeir hafa unnið með og þekkt í mörg ár.

Framsóknarflokkurinn átti tvo fulltrúa í þessari nefnd hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson og hv. þm. Eygló Harðardóttur. Snemma var ákveðið að þessir ágætu þingmenn skyldu hafa starfsfrið fyrir þingflokki framsóknarmanna, að þeir yrðu ekki fyrir þrýstingi í erfiðum störfum. Það vinnulag hélt allan tímann.

Að sjálfsögðu eru mörg mál ekki pólitísk í eðli sínu heldur verður hver og einn að leggja hlutlægt mat á vinnu og niðurstöðu sem kemur út úr skýrslunni. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur ekki og ætlar sér ekki að móta einhverja eina stefnu í þessum efnum. Að mínu viti er þetta mál ekki af þeirri stærðargráðu að menn eigi að skiptast í hreinar línur eftir þingflokkum. Það var ekki hægt og ég get sagt það hér að ég er ekki enn búinn að gera upp hug minn varðandi skýrsluna og það sem í henni stendur. Þetta er heilmikil lesning og menn þurfa að hugsa þessi mál vel. Þess vegna er ekki ljóst hvernig þingflokkur Framsóknarflokksins mun skiptast þegar kemur að einstaka álitamálum sem skýrsluna.

Það búið að ræða mikið um fortíðina og það er eðlilegt. Það er mikið búið að ræða um einkavæðingu bankanna og fleira úr fortíðinni. Ég hefði viljað sjá, vegna þess hversu góð skýrslan er að mörgu leyti hvað varðar framtíðina, að menn einbeiti sér meira að núinu, að Alþingi í dag og hvernig við sjáum íslenskt samfélag þróast á næstu árum. Hér eru fjölmargar umbótatillögur sem ég tel að við þingmenn ættum að eyða meiri orku í að ræða um en rífast fram og til baka um orðna hluti. Þeir eru þegar orðnir. Ég er ekkert að fara fram á það að menn breiði yfir sannleikann eða hvað átti sér stað. Ég er einfaldlega að fara fram á það að við eigum uppbyggilega umræðu um margar mjög góðar hugmyndir sem nefndin komst að, alveg sama hvar í flokki menn stóðu. Þetta er lofsvert og ég tel að formaður nefndarinnar, hv. þm. Atli Gíslason, hafi staðið sig mjög vel í því að ná fram sameiginlegri niðurstöðu níu þingmanna úr fimm ólíkum flokkum, sem var ekkert auðvelt verk. Ég hef tekið eftir því í almennri umræðu að hv. formaður nefndarinnar verður fyrir ómaklegri gagnrýni. Ég held að hann hafi viljað ná fram þverpólitískri samstöðu um mikilvæg mál.

Þá langar mig að ræða um daginn í dag og hvernig við ætlum að starfa á þessum vinnustað í framtíðinni, vegna þess að við þurfum að byrja á að taka til heima hjá okkur. Ég get ekki tekið undir það sem mér fannst felast í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að menn þyrftu að sýna fram á að þeim væri alvara með þessum orðum á þessu blaði. Ég efast ekkert um það. Ef mönnum er ekki alvara með því sem stendur í skýrslunni og níu þingmenn hafa lagt fram þá er Alþingi Íslendinga einfaldlega ekki viðbjargandi. Ef við ætlum að detta í einhvern sandkassaleik í umræðu um svo mikilvæg mál sem þessi — og ég ætla ekki að bera brigður á að mönnum er dauðans alvara að byrja upp á nýtt, að sjálfstæðisbarátta Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, eins og formaður nefndarinnar sagði í gær, væri hafin. Það var mikilvæg yfirlýsing. Ég held að enginn reyni að tala með þeim hætti að honum sé ekki full alvara.

Þá erum við komin að því sem mér finnst einkenna þennan vinnustað sem mun væntanlega breytast fljótlega. Menn hafa gagnrýnt forustumenn í ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og í þessari ríkisstjórn fyrir svokallað ráðherraræði eða oddvitaræði. Hefur það eitthvað breyst? Ekki enn. Nú er þessi skýrsla komin fram og ég ber þá von í brjósti að nýr dagur hafi runnið upp við útkomu hennar og menn taki málin föstum tökum.

Það er ekki eðlilegt að tveir aðilar hafi yfirgnæfandi völd í þinginu þar sem sitja 63, að þau ráði hreinlega, og þá er ég að tala um hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, svo miklu sem raun ber vitni. Þetta er ekkert nýtt en ég vil meina að það hafi ekkert skánað, jafnvel versnað. Þetta er eitthvað sem verður að breytast. Það er staðreynd að við í stjórnarandstöðunni sitjum ekki og stöndum eins og þessir hæstv. ráðherrar vilja. Þar reynir á stjórnarmeirihlutann, þ.e. þingmenn stjórnarinnar. Það verður ekkert auðvelt fyrir þá hv. þingmenn. Ég tek þau orð alvarlega að við þurfum að láta af þessum vinnubrögðum og að nú séu nýir tímar runnir upp á vettvangi þingsins.

Ég vil einnig fagna því sem kom fram hjá hæstv. forseta þingsins að það eigi að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar í störfum þingsins. Þetta er mikilvæg yfirlýsing sem ég held að muni ala af sér betri störf á vettvangi þingsins. Að sjálfsögðu erum við með gagnrýni en hún er ekki neikvæð. Það er í sjálfu sér jákvætt hugtak að gagnrýna, það getur verið uppbyggilegt. En það er ekki sama hvernig það er gert og þar þarf stjórnarandstaðan, eins og ég beindi orðum mínum að stjórnarliðum áðan, að líta í eigin barm. Það er ekki alveg sama hvernig menn koma máli sínu á framfæri á þingi.

Þá erum við komin að umræðuhefðinni sem hér hefur skapast. Þó að við séum ósammála er ekkert að því en menn þurfa að nálgast viðfangsefnið með þeim hætti að þeir beri virðingu fyrir sjónarmiðum og skoðunum hver annars. Mér finnst stundum skorta á það í þessari umræðu. Ég get alveg sett sjálfan mig undir þann hatt, maður hefur sjálfsagt ekki verið barnanna bestur í þeim efnum. Staða stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins, eins og ég hef rakið hér — ef við breytum þessum þáttum er ég viss um að við munum ná verulegum framförum í störfum okkar hér í þinginu.

Svo er annað sem þingið hefur því miður vanrækt á undangengnum árum en það er eftirlitshlutverk þingsins. Það hefur komið fram að mánaðarlega koma skýrslur frá Ríkisendurskoðun til þingsins. Það hefur ekki verið neinn formlegur farvegur fyrir þær skýrslur þar sem sett er út á ýmislegt í stjórnsýslunni sem nefndir þingsins hafa því miður ekki farið nægjanlega vel ofan í. Ég mundi gjarnan vilja að við hefðum betra skipulag á þeirri vinnu vegna þess að það er skylda okkar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ríkisendurskoðun er stofnun Alþingis sem á að hjálpa okkur að sinna því eftirliti. Til þess að við séum virk í því þurfum við að fara vel og vandlega yfir það sem Ríkisendurskoðun sendir frá sér.

Ég tek undir að Þjóðhagsstofnun verði reist við og verði undir hatti Alþingis og að við fáum aukinn aðgang að stofnunum og sérfræðiráðgjöfum til þess að komast að niðurstöðum um vandasöm mál sem við hér í þinginu þurfum aðstoð við.

Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna. Við þurfum að byrja hér. Við þurfum að sýna það að nýir tímar hafa runnir upp hér á landi. Við ættum að gera minna af því að kasta skítabombum á milli okkar og segja: Þetta var þér að kenna og hitt var þér að kenna. Heldur þurfum við að byggja á þessari góðu skýrslu sem inniheldur margar merkilegar niðurstöður sem búið er að fara í gegnum í mörgum ágætum ræðum hér á undan.

Ég vil að lokum segja það, svo ég detti nú í þann pytt að tala örlítið um fortíðina, að mikið hefur verið rætt um að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi alfarið verið á móti því að rannsaka einkavæðingu bankanna árið 2003. Þetta er ekki hægt að lesa úr því sem stendur m.a. í áliti hv. þingmanna Framsóknarflokksins í nefndinni. Þvert á móti er bent á það að menn telji að eftir að Ríkisendurskoðun er búin að taka ferlið út — við erum búin að fá fjöldann allan af minnisblöðum og rannsóknarnefndin líka og það er skoðun út af fyrir sig að menn telja að allt sé komið upp á borðið. Telji menn að fiskur leynist undir steini sem þarf að finna þá leggjast framsóknarmenn að sjálfsögðu ekki gegn því að það verði skoðað. Það má hins vegar líka velta því fyrir sér hvort við þurftum ekki að skoða aðrar einkavæðingar eins og einkavæðingu hinna tveggja stóru ríkisbankanna. Við höfum fengið mun minni upplýsingar um það ferli. Þar var mikil leyndarhyggja yfir því ferli. Ég er alveg viss um að hv. þm. Atli Gíslason og aðrir þingmenn hljóta að vera sammála mér um að nauðsynlegt sé að skoða það ferli líka. Okkur ber skylda til þess sem fulltrúum almennings að fullvissa okkur um að vel sé frá öllu gengið í þessum stóru gjörningum.

Við verðum að huga að einu vegna þess að mér finnst við tala mikið um rannsóknir, og nú er verið að stofna rannsóknarnefndir með rannsóknarnefndum, við megum ekkert gleyma okkur í því að Ísland verði eitt allsherjarrannsóknarsamfélag, að við hefjum rannsóknir á öllum málum. Við þurfum að byggja upp traust. Það er lítið traust í samfélaginu og á þessari stofnun. Við þurfum að byrja heima hjá okkur en ég vara við því að ef við horfum alltaf í baksýnisspegilinn, stofnum hinar og þessar nefndir sem rannsaka hina og þessa hluti, við erum 300 þúsund manna þjóð, þá geri stór hluti samfélagsins lítið annað á meðan. Ég er ekki að hafna því að menn skoði hlutina en við megum ekki festast í þessu fari. Ég tel að við eigum að halda áfram með umræðuna á þeim nótum sem nefndin hefur gert svo ágætlega. Hún hefur komið fram með margar góðar tillögur og það sem mest er um vert í þessu stóra máli er að hún hefur náð að sameinast þvert á flokka um stórar og mikilvægar ákvarðanir sem við þurfum að taka hér í þinginu á næstu vikum, mánuðum og árum.

Vegna þess að umræðan í samfélaginu hefur verið þannig að þetta eru falleg orð á blaði en síðan verði ekkert með þau gert, þá vil ég lýsa ánægju minni með að sérstök þingmannanefnd verður sett yfir verkefnið sem á að hafa eftirlit og fylgja eftir að hér muni menn standa við stóru orðin.

Við þurfum svo sem enga nefnd til þess að fylgjast með því. Við munum á næstu vikum og mánuðum ræða um hin og þessi mál í þinginu og munum örugglega sjá hvort eitthvað hafi breyst, til að mynda gagnvart oddvitaræðinu. Það mun ráðast mjög fljótlega en ég tel að á grunni skýrslunnar getum við komið Íslandi langt fram á veginn og haldið áfram eða byggt upp aukið traust á íslensku samfélagi því að ef við náum ekki trausti á milli manna og trausti á stofnunum og þingi, verður þessi endurreisn mun hægari en annars hefði mátt vera.

Ég vil að lokum þakka þingmönnunum, starfsfólki þingsins og þeim sérfræðingum sem hafa hjálpað þingmönnunum í þessari vinnu kærlega fyrir sitt mikla starf. Ég er mun bjartsýnni en ég var eftir að skýrslan kom fram í dagsljósið.