138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

707. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hennar. Eins og ég rakti í ræðu minni er það mat mitt að meiri líkur en minni séu á sakfellingu hvað snertir þrjá ráðherra en ekki fjórða ráðherrann títtnefndan. Við tökum það þó skýrt fram í bókun okkar, undirritaður þingmaður og Oddný G. Harðardóttir, að formlegt verksvið hans og þær upplýsingar sem hann bjó yfir hefðu þó gefið tilefni til frekari viðbragða af hans hálfu. Það er því að mínu viti ljóst að viðkomandi hafi að einhverju leyti gerst sekur um gáleysi en ekki stórkostlegt gáleysi. Ég komst hins vegar að annarri niðurstöðu hvað varðar aðra ráðherra og það er skoðun mín, en ég ber að sjálfsögðu virðingu fyrir skoðunum annarra í þessu sambandi.

Hvað snertir þá umræðu sem verið hefur uppi um ítarlegri rannsókn getur vel farið svo að einhverjir þingmenn séu þeirrar skoðunar og fyrir þeirri skoðun ber ég sömuleiðis virðingu en ég er ósammála því. Ég tel að nóg sé komið af ítarlegri rannsókn. Næsta skref er ítarleg rannsókn á vegum saksóknara. Það er það skref sem við eigum að taka næst.