138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni þingmannanefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasyni, fyrir yfirferðina yfir þetta nefndarálit. Eins og hv. þingmaður gat um flutti ég ásamt öðrum breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem fylgir skýrslunni sem lýtur að því að ráðist verði í sjálfstæða og óháða rannsókn af sérstakri rannsóknarnefnd á embættisfærslum og ákvörðunum íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu. Sú tillaga er lögð fram vegna þess að þingmannanefndin leggur til rannsóknir á ýmsum atriðum sem ég get í sjálfu sér tekið undir. En ég tel að sé eitthvert mál uppi sem verðskuldar að vera rannsakað sé það Icesave-málið.

Ég fagna því út af fyrir sig að því sé lýst í nefndaráliti að ekki hafi verið andstaða innan nefndarinnar við að slík rannsókn færi fram, en ég harma það mjög að meiri hluti nefndarmanna telji að ekki sé tímabært að ráðast í rannsókn á Icesave-málinu fyrr en samningaviðræður við Breta og Hollendinga hafi verið leiddar til lykta. Þessi rökstuðningur finnst mér býsna merkilegur og hlýt því að spyrja hv. þm. Atla Gíslason að því hvort sömu sjónarmið eigi þá ekki við um aðrar þær rannsóknir sem farið hefur verið í í tengslum við Icesave-málið og þar á ég við rannsóknarskýrslu Alþingis. Var hún í ljósi þessa ótímabær úr því að ekki var búið að leiða Icesave-málið til lykta? (Forseti hringir.) Og á sama grundvelli hlýt ég að spyrja hv. þingmann að því hvort það sé ekki ótímabært að ákæra ráðherra í fyrrum ríkisstjórn fyrir embættisfærslur sínar í tengslum við Icesave-málið.