138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:09]
Horfa

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Áður en atkvæðagreiðslan hefst vill forseti gera grein fyrir því hvernig henni verður hagað en forseti hefur kynnt áform sín um atkvæðagreiðsluna fyrir formönnum þingflokka og voru ekki gerðar athugasemdir þar.

Fyrst verður afgreidd breytingartillaga frá flutningsmönnum tillögunnar, en hún er leiðrétting á tilvísun í greinanúmer laga í tillögunni.

Því næst koma til atkvæða einstakir stafliðir tillögunnar, allir saman eða hver fyrir sig eftir óskum þingmanna, þ.e. stafliðir í inngangsmálsgrein, en þar eru nöfn þeirra sem málshöfðun beinist að, og svo viðkomandi stafliður í þeim hluta tillögunnar sem kallast kæruatriði. Fyrir þá sem eru með atkvæðagreiðsluskjal fyrir framan sig má orða þetta svo að bornir verða upp saman til atkvæða stafliður sem merktur er með litlu a og stafliður sem merktur er með stóru A og svo koll af kolli. Verði stafliðirnir allir eða einhver þeirra samþykktir verða inngangsmálsgrein og niðurlagsákvæði tillögunnar afgreidd þar á eftir. Síðan fyrirsögn hennar og loks verður tillagan í heild borin upp til atkvæða eftir almennum reglum.

Verði allir stafliðir felldir mun forseti úrskurða þingsályktunartillöguna fallna.

Óskað hefur verið eftir nafnakalli við atkvæðagreiðsluna.