138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í 100 ár rúm hefur ekki þótt tilefni til að virkja ráðherraábyrgðarlögin. Slíkt tilefni er ekki enn komið fram. Til þess skortir enn að sýnt sé fram á með sannfærandi hætti að þeir ráðherrar sem hér er gerð tillaga um að verði dregnir fyrir landsdóm hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt hirðuleysi í embættisfærslum sínum. Auk þess má nefna að þau ákæruatriði sem hér er gerð tillaga um standast ekki skoðun. Með því að höfða sakamál gegn fyrrverandi ráðherrum í tilefni af hinum hörmulegu afleiðingum hrunsins er verið að færa pólitíska uppgjörið sem nauðsynlegt er inn í réttarsalina þar sem það á ekkert erindi. Þingið hefur í dag samhljóða afgreitt afar mikilvæga tillögu og gert upp við rannsóknarskýrsluna. Með því verður því aldrei haldið fram að þingið hafi ekki viljað horfast í augu við þær alvarlegu ásakanir sem þar komu fram.