139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

mótmæli á Austurvelli og umræða um skuldavanda heimilanna.

[14:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa óskað eftir því að skuldavandi heimilanna verði tekinn á dagskrá. Ég held að það ríki mikill samhljómur á Alþingi um að taka þessi mál föstum tökum og fastari en gert hefur verið. Við framsóknarmenn höfum lagt fram mýgrút af tillögum í þá veruna, reyndar sagt margoft að á þessum vanda hefði átt að taka fyrir löngu.

Það er svolítið seint að grípa til aðgerða núna en betra er þó seint en aldrei og ég vil taka það sérstaklega fram að ég fagna því að það virðist vera samhljómur innan úr öllum flokkum um að fara í almennar leiðréttingar fyrir heimili landsins og menn eru í sífellt meiri mæli að taka undir (Forseti hringir.) þær tillögur sem við framsóknarmenn höfum lagt fram.