139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:44]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi reiknað það rétt í dag að niðurskurðurinn, krafan hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga væri nákvæmlega 39,02% sem á mannamáli eru 40% og hagræðingarkrafan hvað sjúkrasviðið snertir er einhvers staðar í námunda við 72% sem er vitaskuld eyðilegging á því góða starfi sem þar fer fram.

Ég hef talað fyrir þjóðarsátt í sambandi við fjarlægð fólks að grunnþjónustu og hún megi ekki vera meiri en 100 km, að hringinn í kringum landið eigi fólk þess alltaf kost að ná í grunnþjónustu innan 100 km radíuss. Þessi þjónusta á Húsavík snertir ekki aðeins Húsvíkinga sem geta farið á einum klukkutíma til Akureyrar, heldur líka íbúa allt austur á Þórshöfn. Þetta er eitthvert víðfeðmasta hérað landsins þannig að ef svo fer fram sem horfir að eini kosturinn í þessari stöðu sé að skera svo rækilega niður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga þá mun ég segja nei.