139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að þingmaðurinn hafi gefið sér tækifæri til að reikna út prósentuhlutföllin. Þau eru reyndar í bæklingi sem allir fjárlaganefndarmenn fengu afhentan fyrr í dag. Ég vil lýsa yfir ánægju með að heyra, ef ég skil rétt, að þingmaðurinn er reiðubúinn að lýsa því yfir að það eigi ekki að fara í þennan niðurskurð sem ég veit að Þingeyingar, margir, verða mjög ánægðir að heyra. En það sem ég vil hafa alveg á hreinu er það að við megum ekki vekja von í brjósti manna sem verður ekki að veruleika. Það er verið að tala um að breyta heilsugæslunni og heilbrigðisþjónustunni í landinu til frambúðar og það er verið að skera niður eitthvað sem verður ekki sett á laggirnar aftur. Ef þingmaðurinn er reiðubúinn að koma í þá baráttu með mér og (Forseti hringir.) fleirum í stjórnarandstöðunni þá lýsi ég fullri ánægju með það.