139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

skattstefna ríkisstjórnarinnar.

[16:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Að undanförnu hefur ákaflega mikið verið rætt um hin ýmsu mistök í aðdraganda efnahagshrunsins og oft talað um skattstefnu. Því er haldið fram af sumum að skattar hafi verið lækkaðir of mikið á fjölskyldur og fyrirtæki í aðdraganda hrunsins, í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, og svo sérstaklega í tíð stjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á hápunkti þenslunnar. Sagt er að í þenslu sé ekki rétt að lækka skatta og oft má það til sanns vegar færa. Hin hliðin á þeim peningi hlýtur að vera sú, og er sú samkvæmt öllum kunnari hagfræðikenningum, að í kreppu hækka menn ekki skatta þannig að því skýtur svolítið skökku við að hæstv. fjármálaráðherra skuli nú hafa staðið fyrir verulegum skattahækkunum og boðað að það yrði rétt upphafið að því sem koma skyldi.

Hæstv. ráðherra hlýtur að sjá að það er óráð að lækka skatta í þenslu, eins og hann heldur fram, ef sú er raunin hlýtur að líka vera óráð að hækka skatta í kreppu.

Hins vegar hefur þessi ríkisstjórn fyrst og fremst lagt áherslu á skattahækkanir og miklu meira en boðað var í upphafi. Þannig fór til að mynda stöðugleikasáttmálinn svokallaði í uppnám, ekki hvað síst vegna þess að hlutfall skattahækkana í tekjuöflun ríkissjóðs og niðurskurði var miklu meiri en ráð var fyrir gert og eins lægra hlutfall sparnaðaraðgerða. En hugkvæmnin í skattahækkunum hefur líka verið alveg ótrúlega mikil og nú ræða menn jafnvel um að leggja á sérstakan fríhafnarskatt sem er náttúrlega þversögn í sjálfu sér og felur í sér að menn leggja þá niður fríhafnarstarfsemina. Menn geta svo sem tekið þá ákvörðun en þetta sýnir að þeim eru engin takmörk sett þegar kemur að skattlagningu. En það leiðir hins vegar alltaf sömu hlutina af sér, það leiðir til aukins samdráttar. Um það eru ótal dæmi frá ótal löndum frá ýmsum tímum og við erum þegar farin að sjá það á Íslandi vegna þess að skattarnir skila sér ekki eins og ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir.

Við síðustu áramót voru 112 milljarðar kr. í áföllnum ógreiddum sköttum, 112 milljarðar kr. sem menn áttu að vera búnir að greiða í skatta en höfðu ekki verið greiddir. Það sýnir einfaldlega að almenningur og fyrirtækin standa ekki undir þessum miklu skattahækkunum, enda eru álögurnar orðnar hlutfallslega miklu meiri en áður var. Með því á ég við að jafnvel óbreytt skatthlutfall væri þyngri byrði nú en áður var vegna þess að svo stór hluti tekna heimila og fyrirtækja rennur í afborganir af skuldum. Á sama tíma hefur verðbólga aukist verulega og allar vörur og aðföng hafa hækkað í verði þannig að það er miklu minna eftir til þess að standa undir jafnvel bara sömu skattprósentu og lögð var á hér áður fyrr, hvað þá hækkuðum sköttum. Afleiðingin er sú sem við sjáum nú þegar blasa við á ýmsum sviðum, aukin undanskot frá skatti, aukin svört atvinnustarfsemi, og það birtist jafnvel í því að nú hefur bruggstarfsemi náð nýjum hæðum, að því er virðist, vegna þess að menn höfðu gengið of langt í því að skattleggja vöruna. Og til hvers leiddi það? Tekjur ríkisins af sölu áfengis hafa minnkað. Neyslan hefur líklega ekki minnkað sérlega mikið, því miður, en tekjurnar hafa minnkað vegna þess að menn fara einfaldlega í neðanjarðarhagkerfið. Skattstefna ríkisstjórnarinnar er því til þess fallin að ýta undir neðanjarðarhagkerfið og halda hinu hagkerfinu niðri, koma í veg fyrir að það fái notið sín og skapi þau verðmæti sem við þurfum til þess að standa undir fjárlögum.

Ástæðan fyrir því að það þarf að skera svo mikið niður sem raun ber vitni í fjárlögum ríkisins er að ekki hefur orðið sú verðmætaaukning sem hefði átt að verða og hefði getað orðið vegna þess að á Íslandi hafa á margan hátt verið kjöraðstæður fyrir nýja fjárfestingu, ekki hvað síst í útflutningsgreinum. Ótalmörg fyrirtæki, tugir fyrirtækja hafa lýst yfir áhuga á því að fjárfesta hér og lýst sig reiðubúin til þess. En það vantar tvennt, það vantar orku og ekki síður vantar stöðugleika. Það vantar pólitískan stöðugleika og það er ekkert jafnvel til þess fallið, ef svo má að orði komast, að ýta undir óstöðugleikann og óljós skattstefna og endalaus boð um skattahækkanir.