139. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[18:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við tillögu til þingsályktunar um rannsókn á Íbúðalánasjóði. Ég vil segja það strax svo að enginn misskilningur verði að ég held að æskilegt væri að slík rannsókn færi fram til að eyða öllum misskilningi, ranghugmyndum og útúrsnúningum á því sem sagt hefur verið um Íbúðalánasjóð og þensluna sem hér varð á íbúðalánamarkaði.

Í því sambandi var alveg rétt hjá hv. þingmanni, fyrsta flutningsmanni þessarar þingsályktunartillögu, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að menn hefðu breytt lánshlutföllum úr 70% í 90% sem þeir ætluðu reyndar að gera á heilu kjörtímabili en vegna innkomu bankanna á sínum tíma neyddist Íbúðalánasjóður til að taka þátt í þeirri samkeppni eins og bankarnir gerðu. Ég held að stærðargráðan á lánum á þessum tíma, fari ég rétt með, hafi verið þannig að Íbúðalánasjóður hafi lánað um 50 milljarða meðan bankarnir lánuðu um 500 milljarða. Það hélst hér á suðvesturhorninu þar sem þenslan var mest og svo geta menn bara spurt sig hvor hafi valdið meiri þenslu, Íbúðalánasjóður eða bankarnir. Það breytir því hins vegar ekki, eins og fjallað var um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að menn töldu þá ákvörðun að hækka lánshlutfall hafa verið mistök í hagstjórn og það er sjálfsagt að skoða það, sérstaklega í ljósi þess að síðan settu menn engar skorður við útlánum annarra aðila, lífeyrissjóða eða fjármálafyrirtækja, banka eða annarra, sem hefði kannski þurft að gera. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. flutningsmanni um vald Seðlabankans, til að mynda gæti hann sett reglur um veðhlutföll og stjórnað þar með og vonandi komið í veg fyrir bóluhagkerfi. Ég held því að á margan hátt væri æskilegt að þetta yrði skoðað í eitt skipti fyrir öll af hlutlausum aðilum og þeim pólitíska áróðri eytt sem hefur verið gegn Íbúðalánasjóði og áhrifum hans á þensluna á þessum tíma.

Ég vil líka nefna að kannski hefði verið æskilegt, vegna þess að við erum að velta fyrir okkur hvaða framtíðarfyrirkomulag við eigum að hafa á íbúðalánamarkaði, að hér hefði legið undir skoðun hvernig lífeyrissjóðirnir og bankarnir komu að markaðnum og önnur fjármálafyrirtæki á þeim tíma svo að við gætum myndað heildarskoðun á því í kjölfarið. Í því sambandi nefndi ég reyndar í umræðu um fyrri rannsóknarmálin að þingmannanefndin sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, forseti þingsins og forsætisnefnd hefðu lagt til að sett yrði á laggirnar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem slíkum málum yrði vísað til eða hún skoðaði að eigin frumkvæði. Þá mundu menn gæta þess að taka inn alla þá þætti sem ólíkir þingmannahópar vildu að yrðu skoðaðir og gættu þess við rannsókn að nýta fjármuni vel og þær rannsóknarskýrslur. Þegar við setjum á laggirnar opinberar rannsóknarnefndir, eins og er hugmynd að gera, frumvarpið verði lagt fram til breytingar á þingsköpum, setjum við bæði einstaklinga og stofnanir í óþægilegt ljós algjörlega án nokkurrar réttarstöðu, svo það sé nú sagt skýrt, vegna þess að við höfum verið að fjalla hér um ráðherraábyrgð og landsdóm. Það yrði óþægilegt að sitja undir slíkri rannsókn að ósekju. Þess vegna eigum við að fara sparlega með slíkar rannsóknir, gera þær þegar við teljum að samfélagið njóti góðs af þeim og við getum dregið einhvern skynsamlegan lærdóm af.

Eitt atriði sem fellur undir þær rangfærslur sem ég tel æskilegt að yrðu skoðaðar — sem kom fram hjá flutningsmanni, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur — er þegar bankarnir réðust inn á markaðinn og borguðu upp útlán Seðlabankans. Íbúðalánasjóður sat þá uppi með mikið af fé sem hann kom ekki út í samkeppni við bankana sem gengu mjög langt í að lækka vexti og voru tilbúnir að lána háar fjárhæðir og var ekkert þak þar á, engar 18 milljónir eða 22, heldur gátu þær þess vegna verið 100 eða jafnvel fleiri og sitja nú margir í súpunni fyrir að hafa tekið slík lán hjá bönkunum. Þá hafði Íbúðalánasjóður í það minnsta tvo valkosti: Annar var sá að setja fjármunina í Seðlabankann á lágum nokkuð öruggum vöxtum með kannski minni hættu á tapi en hinn var að kaupa skuldabréf á markaði. Gallinn við að setja peninga inn í Seðlabankann var að peningarnir fóru beint út úr Seðlabankanum inn í bankana aftur og fjármögnuðu þar með áfram vitleysuna. En Íbúðalánasjóður gerði hið gagnstæða, hann keypti skuldabréf af áðurútgefnum útlánum. Dálítill munur er á hvort hann tók þátt í að hella olíu á eldinn eða hvort hann reyndi að taka við eldtungunum. Ég tel æskilegt að þetta verði skoðað. Reyndar má nefna að ef Íbúðalánasjóður hefði lagt alla fjármuni inn í Seðlabankann hefðu vaxtatekjur Íbúðalánasjóðs verið 10 milljörðum lægri upphæð en hann þó fékk.

Ég tek undir með flutningsmönnum að æskilegt væri að staðreyndir lægju fyrir þar sem Íbúðalánasjóður er ákaflega mikilvægur og nauðsynlegur á íbúðalánamarkaði okkar og hefur eðlilega talsverð áhrif vegna stærðar sinnar.