139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

skuldir heimilanna og afskriftir.

[10:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um að fasteignaveðlán sem slík, ef hv. þingmaður á við þau, séu til sérgreind sem flokkur í mati á þessum eignasöfnum. Hins vegar eru lán til einstaklinga ásamt nokkrum öðrum smærri lánveitingum í sérflokki, a.m.k. í einu tilviki sem ég sá þar sem lagt hafði verið mat á þetta eignasafn. Ég er ekki viss um að það sé yfir höfuð hægt að greina út úr þessum gögnum, hvorki út úr Deloitte-skýrslunni né öðru því mati sem þarna fór fram, fasteignaveðlánin nákvæmlega eða lán til íbúðarhúsnæðis sérstaklega, en lán til einstaklinga er hægt að skoða, að því er ég best veit.

Fyrir utan skýrslu Bankasýslunnar má líka benda á ársreikninga bankanna. Þangað er hægt að sækja tilteknar upplýsingar í efnahagsreikning þeirra og skýringar með honum. Það eru þau opinberu gögn sem hægt er að vísa til í þessum efnum en að sjálfsögðu voru matsgögnin trúnaðarmál meðan verið var (Forseti hringir.) að ná samningum um uppgjör milli gömlu og nýju bankanna.