139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

efnahagur Byggðastofnunar.

14. mál
[16:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram nokkrar fyrirspurnir til hæstv. iðnaðarráðherra um efnahag Byggðastofnunar og tilefnið er sú ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fella niður aflamark í rækju. Það er alveg ljóst að það mun hafa áhrif á efnahag Byggðastofnunar sem gegnir gríðarlega þýðingarmiklu hlutverki fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni og í þeim þrengingum sem riðið hafa yfir rækjuiðnaðinn á undanförnum árum hefur Byggðastofnun gegnt lykilhlutverki. Rækjuiðnaðurinn á landsbyggðinni, ekki síst á svæðum sem háð hafa varnarbaráttu undanfarin ár, hefði ekki verið svipur hjá sjón ef ekki hefði komið til atbeini Byggðastofnunar.

Það er alveg ljóst mál að með ákvörðun ráðherra frá því í sumar er verið að greiða Byggðastofnun mjög þungt högg rétt eftir að ríkissjóður hafði létt af stofnuninni 3,6 milljörðum svo hún yrði starfhæf. Ég skal ekki segja hvort það muni lama útlánastarfsemi stofnunarinnar, það hefur ekki verið upplýst, en vonandi kemur það fram í svari hæstv. ráðherra á eftir. En þó er alveg ljóst mál að afleiðingarnar af þessari ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verða grafalvarlegar.

Ef við setjum þetta aðeins í samhengi hefur verið upplýst að heildarútlán Byggðastofnunar til rækjuiðnaðarins eru um 1,3 milljarðar kr. Þessi lán eru m.a. tryggð með veðum í veiðirétti sem fylgir skipum en einnig í húsum og tækjum. Það ríkir þess vegna óvissa um tryggingar á þessum lánum eftir ákvörðun ráðherra og fyrir stofnun eins og Byggðastofnun er þetta grafalvarlegt mál eins og stjórnarformaður stofnunarinnar greindi frá í Morgunblaðinu í sumar. Til útskýringar skal nefna að eigið fé stofnunarinnar var álíka upphæð eða ríflega milljarður um síðustu áramót, heildarrekstrartekjur stofnunarinnar það ár voru sömuleiðis ámóta upphæð, og til þess að styrkja eiginfjárgrunn Byggðastofnunar og gera hana færa um að stunda útlánastarfsemi samþykkti Alþingi heimild á fjárlögum til að veita stofnuninni eiginfjárframlag upp á einn milljarð kr. Með ákvörðun ráðherrans er fé skattborgaranna því greinilega hent út um gluggann.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur tjáð sig um þessi mál og sagt að sér lítist vel á ákvörðun starfsbróður síns í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þeim var örugglega ljóst hverjar afleiðingarnar af þessari ákvörðun yrðu fyrir hag stofnunarinnar, ella hefði ákvörðunin væntanlega ekki verið tekin.

Þess vegna hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hver verða áhrif á efnahagsreikning Byggðastofnunar, að mati stofnunarinnar, af þeirri ákvörðun að fella niður aflamark í rækju?

2. Var kannað fyrir fram hjá Byggðastofnun eða í ráðuneytinu hvaða áhrif þessi ákvörðun hefði á efnahagslega stöðu Byggðastofnunar?

3. Hvernig verður brugðist við af hálfu ríkisvaldsins til þess að styrkja efnahag Byggðastofnunar í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda um rækjuveiðar?

Það sem spurningin snýst í raun og veru um er þetta: Verður Byggðastofnun í færum til þess að halda úti útlánastarfsemi eftir að þessi ákvörðun var tekin?