139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

samvinna mennta- og menningarstofnana á Suðurlandi.

36. mál
[17:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki miklu við þetta að bæta öðru en því að ég vil taka undir með hv. þingmanni um að aðgengi að menntun og menningu er auðvitað eitt stærsta byggðamál sem við getum staðið í, til að mynda á þessari samkundu. Á þinginu ætti þetta að vera ein af stærstu áherslum okkar í byggðamálum, þ.e. hvernig við getum tryggt aðgengi að menntun, hvort sem það er í gegnum fjarnám eða í staðnámi, og aðgengi að menningu. Stundum virðist það gleymast, til að mynda þegar skoðað er hversu gott er að búa á einhverjum stað þá er aðgengi að menningu og það að geta tekið þátt í menningarstarfi eitt af því sem skiptir verulegu máli. Ég held að við megum ekki vanmeta það. Stundum er talað um þetta eins og eitthvert skraut á samfélaginu en mín trú er sú að menningarstarfið sé eitt af því sem límir samfélög saman og gerir þau virkilega eftirsóknarverða staði til að búa á.