139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hv. þingmaður er mér sammála um að það sé þó ástæða til að gleðjast yfir því, þó lítið sé, að hallinn verður minni vonandi á þessu ári heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir, með sama hætti og hann varð minni á árinu 2009 en fjárlög gerðu þá ráð fyrir. Það munar um 32 milljarða kr. betri afkomu á árinu 2009 og aftur tæplega 29 milljarða betri afkomu á þessu ári. Þá erum við komin með 60 milljörðum minni skuldir vegna uppsafnaðs hallareksturs ríkissjóðs á þessum tveimur árum og það dregur í, vaxtakostnaðurinn og að endurgreiða 60 milljarða eins og hv. þingmaður veit.

Varðandi heimildir til að auka hlutafé í fyrirtækinu Farice þá er það sett fram með venjulegum hætti í heimildargrein en fjárhæðir liggja alveg fyrir og hv. þingmenn geta skoðað þær. Ég man ekki hvað kemur nákvæmlega fram í greinargerð en þar er um að ræða endurfjármögnun í samstarfi við hinn kjölfestueigandann sem eftir mun standa í Farice en það er Landsvirkjun. Ríkið og Landsvirkjun munu þannig að uppistöðu til eiga fyrirtækið sem á og rekur sæstrengina til og frá landinu. Færeyingar kaupa væntanlega sinn hlut út og hverfa úr samstarfinu þannig að íslenska ríkið eða ríkið og Landsvirkjun munu halda þær eignir.

Varðandi bankana held ég að hv. þingmaður hljóti að átta sig á því að það er ákaflega erfitt að svara því nákvæmlega á þessu stigi. Eins og ég hef sagt, í ljósi genginna dóma Hæstaréttar um gjaldeyrislán, þá er langlíklegast að sú fjárhæð verði á bilinu núll og vonandi ekki meira en fáeinir milljarðar kr. í mesta lagi. En það er ekki hægt að útiloka að ríkið sem ábyrgur eigandi að þeim fjármálastofnunum sem það hefur endurreist og á, geti þurft að standa við bakið á þeim til að tryggja þeim fullnægjandi eigið fé.

Leiga á þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna er sömuleiðis afmörkuð upphæð og liggur nokkuð skýrt fyrir hvað rekstur slíkrar þyrlu kostar umfram þær fjárheimildir sem Landhelgisgæslan sjálf hefur (Forseti hringir.) til að reka það mál. Kaupin á Miðbæjarskólanum eru samkvæmt þegar gerðum kaupsamningi þannig að sú fjárhæð liggur einhvers staðar fyrir.