139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:55]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var umræðan um kennivíddirnar sem hleypti mér núna af stað upp í ræðustól. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að þær eru ýmsar kennivíddirnar sem miðað er við úti á hinum almenna launamarkaði; aldur, menntun og fyrri störf meðal annars. Okkur finnst hins vegar fráleitt að taka slík viðmið til álita gagnvart þingstarfinu vegna þess að það er eitt og sama ábyrgðarhlutverkið auðvitað sem felst í hinum almennu þingstörfum og ekki viljum við fara að láta draga okkur í dilka út frá slíkum kennivíddum.

Við erum í raun og veru sammála um að þingmannsstarfið sem slíkt er eitt starf sem á að meta á einn og sama hátt til launa að svo miklu leyti sem um er að ræða þennan grunn sem við köllum þingmannsstarf. Ofan á þann grunn leggjum við síðan meiri skyldur á herðar ákveðnum kollegum okkar og félögum, samstarfsmönnum í þinginu, og það er í raun og veru það sem málið snýst um. Hvort það er sanngirni í því að hér séu allir á sömu launum fyrir mjög mismikla vinnu er auðvitað grundvallaratriði sem deilan snýst um. En við erum sammála um ábyrgð þingmannsins og vinnuframlag, við gerum ekki mannamun, og ég vona að menn hafi ekki skilið orð mín þannig að ég teldi eðlilegt að við færum að gera hér mannamun á forsendum aldurs, reynslu, menntunar eða annarra óskyldra þátta sem í raun og veru hafa sáralítið með okkar ábyrgð og skyldur að gera sem almennra þingmanna.

Svo þakka ég líka fyrir þessa umræðu því að mér finnst hún skemmtileg.