139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

raforkulög.

60. mál
[15:10]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum. Frumvarp þetta var lagt fram í apríl á síðasta löggjafarþingi og er nú lagt fram á nýjan leik í óbreyttri mynd þar sem ekki náðist að ljúka meðferð málsins á þingi í sumar.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á raforkulögum sem byggja á tillögum nefndar sem skipuð var í júní árið 2008 til endurskoðunar á raforkulögum en samkvæmt bráðabirgðaákvæði í raforkulögum skal vinnu við endurskoðun laganna vera lokið fyrir 31. desember nk. Nefnd þessi sem er skipuð 16 fulltrúum, þar með talið fulltrúum allra þingflokka, hefur ekki lokið störfum og hér er því um áfangatillögur að ræða eins og fram kom við umræðu og meðferð málsins á síðasta þingi og á ég von á því að nefndin eigi eftir að skila okkur frekari tillögum í lok þessa árs.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem snúa að afmörkuðum þáttum raforkulaga og taka mið af þeirri sjö ára reynslu sem nú er komin á lögin. Í fyrsta lagi er lögð til ný skilgreining á hugtakinu stórnotandi þannig að það sé notandi sem notar a.m.k. 80 gígavattsstundir á ári sem samsvarar u.þ.b. 10 megavöttum innan þriggja ára á einum stað. Er það nokkur lækkun frá því sem verið hefur en í dag er viðmiðið 14 megavött. Auk þessa nýmælis er kveðið á um þriggja ára aðlögun til að ná þessu viðmiði en slíkt aðlögunartímabil nýtist sérstaklega minni stórnotendum, svo sem netþjónabúum og öðrum slíkum sem hækka sig yfir lengri tíma.

Í öðru lagi er lagt til að flutningsfyrirtækið Landsnet verði að fullu í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, þ.e. í eigu hins opinbera, og að því fyrirkomulagi verði komið á fyrir 1. janúar 2015. Samkvæmt núgildandi lögum skal flutningsfyrirtækið ávallt vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja sem alfarið eru í eigu þessara aðila. Ekki þykir heppilegt að fyrirtæki sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga og hafa ríka hagsmuni af starfsemi flutningsfyrirtækisins, t.d. raforkuframleiðendur og dreifiveitur, eigi hlut í flutningsfyrirtækinu sjálfu og er því lagt til að kveðið verði á um beint eignarhald ríkisins eða sveitarfélaga á flutningsfyrirtækinu. Í tengslum við það er með frumvarpinu lagt til ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að iðnaðarráðherra skipi nefnd sem gera skuli tillögur fyrir lok árs 2012 um kaup ríkis eða sveitarfélaga á hlut orkufyrirtækja í flutningsfyrirtækinu.

Í þriðja lagi er lagt til að flutningsfyrirtækinu verði heimilað að eiga og reka fjarskiptakerfi sem því er nauðsynlegt vegna rekstrar, bjóða út umframflutningsgetu ef það hefur yfir slíkri flutningsgetu að ráða og selja út sérfræðiþekkingu fyrirtækisins ef eftir því er leitað svo fremi að samkeppni sé ekki raskað. Ef umframeftirspurn er á markaði og flutningsfyrirtækið hefur yfir því að ráða getur það boðið það út. Um er að ræða sambærilegar heimildir og hjá flutningsfyrirtækjum í nágrannalöndunum. Skal slíkri starfsemi haldið aðskilinni í bókhaldi.

Í fjórða lagi er í frumvarpinu að finna ítarlegri ákvæði um tekjumörk og gjaldskrá flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna en eru í núgildandi lögum. Reynsla undanfarinna sjö ára hefur sýnt að þörf er á endurskoðun ýmissa þátta raforkulaga er varða umfjöllun um tekjumörk og gjaldskrár og er með frumvarpinu reynt að setja skýrari ramma utan um þau ákvæði laganna en hópur sérfróðra aðila hefur komið að því verkefni með áðurnefndri endurskoðunarnefnd.

Helstu breytingar frumvarpsins sem snúa að tekjumörkunum felast í því að lagt er til að tekjumörk flutningsfyrirtækisins og dreifiveitnanna verði ákvörðuð til fimm ára í senn í stað þriggja ára eins og nú er. Við útreikning tekjumarka verði arðsemi reiknuð miðað við veginn fjármagnskostnað fyrirtækja í sambærilegum rekstri. Þar sem gjaldskrá flutningsfyrirtækisins fyrir stórnotendur er nú í bandaríkjadölum er í frumvarpinu lagt til að tekjumörkin vegna stórnotenda verði jafnframt í bandaríkjadölum. Þar er því verið að færa það til samræmis.

Í fimmta lagi eru í frumvarpinu lagðar til rýmri heimildir til beinna tenginga milli virkjunar og notanda. Lagt er til að í sérstökum tilvikum megi sækja um leyfi til ráðherra til að flytja raforku beint frá virkjun til notanda, enda tengist hvorki virkjunin né notandi flutningskerfinu eða dreifikerfinu. Ef virkjun nýtur tengingar við flutningskerfið er lagt til að hægt verði að semja um afslátt á úttektargjaldi ef orka er afhent beint frá virkjun til stórnotanda að því gefnu að sú orka fari ekki í gegnum flutningskerfið. Afslátturinn getur numið um 60% af úttektargjaldi stórnotanda og enn meira ef notandinn er alfarið háður því að orkan komi frá virkjuninni sem um ræðir. Er þannig komið til móts við þann möguleika að byggður sé upp orkufrekur iðnaður við eða í nágrenni við virkjun.

Jafnframt er lagt til að í þeim tilvikum þegar notandi er algjörlega háður því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en aðeins raforku getur slíkur notandi óskað heimildar til beinnar tengingar við virkjunina enda þótt hann nái ekki stórnotandaviðmiðinu. Með því er komið sérstaklega til móts við notendur sem eru að byggja upp framleiðslufyrirtæki við hliðina á eða skammt frá jarðvarmavirkjun og nýta frá henni fleiri afurðir en einungis raforku, t.d. koltvísýring eða gufu. Við sjáum að slík starfsemi er nú þegar farin af stað, t.d. í Svartsengi.

Þarna er jafnframt liðkað fyrir því að gróðurhús og annað geti nýtt það sem frá virkjunum kemur og tengt sig beint inn á virkjunina.

Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu verður ekki séð að það muni hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Að þessu sögðu mælist ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.