139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Ég vil beina því alveg sérstaklega til nefndarmanna í umhverfisnefnd að þeir skoði þennan lið sérstaklega. Ég veit af því að það eru áhyggjur innan björgunarsveitanna um þetta. Það er líka gert ráð fyrir því og kemur fram í þessu frumvarpi að það verði lögboðið hlutverk slökkviliðs að fara með stjórn á vettvangi þegar verið er að bjarga fastklemmdu fólki úr byggingum.

Ég held að hér geti þetta stangast á við lögreglulög og verkefni lögreglu. Það er mjög mikilvægt að skoða þennan þátt vegna þess að í náttúruhamförum þar sem almannavarnir eru að störfum er það klárlega lögregla sem fer með stjórnun á vettvangi. Það þarf að skoða það alveg sérstaklega og það sé þá eitthvert samkomulag um það hvernig að þessu er staðið.

Ég beini því til nefndarinnar að skoða þessi mál sem ég hef reifað, alveg sérstaklega, og ég þykist sjá það, af viðræðum mínum við starfsmenn ráðuneytisins og það kemur fram hjá hæstv. ráðherra, að þetta frumvarp er á engan hátt hugsað til þess að hafa nokkur áhrif á þá öflugu starfsemi björgunarsveitanna sem er og ég fagna því og treysti því að nefndin skoði þetta í þeim anda.