139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

41. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Ásmundur Einar Daðason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar. Flutningsmenn hennar eru sá sem hér stendur og hv. þm. Þuríður Backman, Jórunn Einarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fyrir næsta þing frumvarp til laga sem tryggi beina þátttöku fulltrúa sveitarfélaga og starfsmanna heilbrigðisstofnana í skipulagningu og stjórnun heilbrigðisþjónustu á þjónustusvæði viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Markmiðið með frumvarpinu verði að auka íbúa- og atvinnulýðræði og að sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana ráði meiru en nú er þegar heilbrigðisþjónusta er skipulögð og þjónustu forgangsraðað.

Þetta mál á sér nokkra forsögu. Það var flutt á síðasta þingi en auk þess voru breytingartillögur og tillögur þar um fluttar fyrir nokkrum árum síðan, til að mynda af hv. þm. Þuríði Backman og Jóni Bjarnasyni.

Með þessari tillögu ályktar Alþingi að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram á næsta þingi lagafrumvarp þess efnis að fulltrúar sveitarstjórna og starfsmenn heilbrigðisstofnana komi með beinum hætti að skipulagningu þjónustu hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun með skipan stjórnar sem hefði það hlutverk að hafa eftirlit með rekstri heilbrigðisstofnana og vera ráðgefandi varðandi skipulag og þjónustu stofnunarinnar.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá árinu 2007 er landinu skipt í heilbrigðisumdæmi þar sem starfa skal heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir. Markar ráðherra stefnu um heilbrigðisþjónustu á grundvelli laganna en forstjórar heilbrigðisstofnana eru skipaðir af ráðherra til fimm ára í senn og bera þeir ábyrgð á þeirri þjónustu sem stofnunin veitir og að rekstrarafkoma og rekstrarútgjöld stofnunar séu í samræmi við fjárlög. Í lögunum er hvergi að finna ákvæði sem veitir fulltrúum sveitarfélaga í viðkomandi heilbrigðisumdæmi eða almennum starfsmönnum heilbrigðisstofnana aðkomu að skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar.

Þessi lög frá árinu 2007 felldu úr gildi eldri lög nr. 97 frá árinu 1990, um heilbrigðisþjónustu. Töluverðar breytingar höfðu verið gerðar á þeim lögum, til að mynda þegar samþykktar voru breytingar sem fólu í sér að stjórnir heilbrigðisstofnana voru lagðar niður árið 2003. Fyrir þær breytingar skipaði heilbrigðisráðherra fimm manna stjórnir heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa en þrír fulltrúar voru tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarstjórn, einn af starfsmönnum viðkomandi stofnunar og einn án tilnefningar. Umræddar breytingar voru rökstuddar með tilliti til áður samþykktra breytinga á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er kváðu á um aukið starfssvið og ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana. Framangreindar breytingar mættu nokkurri andstöðu enda mikilvægt að viðhalda stjórnum heilbrigðisstofnana, einkum úti á landi, og að sveitarfélög og starfsmenn geti áfram átt aðild að þeim. Ekki er hægt að halda því fram að embættisleg ábyrgð forstöðumanns verði óljós á meðan stjórnir stofnananna eru fyrst og fremst ráðgefandi og hafa ekki beint ákvörðunarvald. Samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins bera þær og forstöðumenn stofnana þó ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir séu í samræmi við heimildir. Jafnframt bera stjórnir og forstöðumenn ábyrgð á því að ársreikningar séu gerðir í samræmi við lög þessi og staðið sé við skilaskyldu á þeim til Fjársýslu ríkisins.

Frú forseti. Með því að í stjórnum heilbrigðisstofnana sitji fulltrúar sveitarfélaga og starfsmanna stofnananna mun íbúalýðræði og atvinnulýðræði aukast. Með auknum tengslum við þau sveitarfélög sem heilbrigðisstofnun þjónustar tækist betur að samhæfa starfsemi heilbrigðisstofnunarinnar og áherslur í störfum sveitarfélaganna. Enn fremur hefur gefist vel að starfsfólk eigi aðild að stjórnum enda getur reynsla þess og nálægð við íbúa verið mikilvæg þegar kemur að skipulagningu heilbrigðisþjónustu. Að auka íbúa- og atvinnulýðræði með þessum hætti er mikilvægt skref til að styrkja stöðu heilsugæslunnar og auka nærþjónustu innan heilbrigðiskerfisins en eitt af áherslumálunum hjá sveitarstjórnum og heilbrigðisstofnunum um allt land hefur verið að standa vörð um heilsugæsluna. Komi heimamenn og starfsmenn að skipulagningu þjónustunnar mun þörfum sjúklinga á viðkomandi svæði frekar vera mætt. Það festir betur í sessi að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð.

Frú forseti. Þetta mál, eins og ég vék að áðan, á sér töluverða sögu. Það á kannski ágætlega við að þetta sé nú til umræðu hér á hv. Alþingi því að þær tillögur sem nú er verið að ræða og varða stefnubreytingar í heilbrigðismálum og niðurskurð koma mjög illa við mörg byggðarlög úti á landi. Þar er mikið talað um að ekki hafi nægilegt samráð verið haft og ég vil benda á að ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga hefði ferlið einfaldlega þurft að vera með öðrum hætti vegna þess að þá hefði þurft að hafa samráð við heilbrigðisstofnanir. Það er nefnilega svo að á mörgum þeim íbúafundum sem haldnir hafa verið allt í kringum landið hafa mótmælin ekki eingöngu beinst að niðurskurðinum heldur líka að þeirri stefnubreytingu sem mörkuð er í fjárlagafrumvarpinu sem miklar athugasemdir hafa verið gerðar við.

Mig langar, með leyfi frú forseta, að lesa úr ályktun fundar sem haldinn var á Sauðárkróki 11. október. Ég ætla ekki að lesa alla ályktunina, einungis kafla sem snúa að þessum stefnubreytingum og þar er einnig ályktað um að þessar stjórnir skuli endurreistar.

„Fram komnar tillögur eru að mati fundarins illa ígrundaðar, illa unnar og settar fram án nokkurs samráðs við íbúa Skagafjarðar eða starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar í héraði. Aðeins er um tilflutning fjármagns og starfa að ræða sem skilar takmörkuðum sparnaði fyrir ríkið en stórauknum kostnaði og fyrirhöfn er velt yfir á íbúa svæðisins. Þá liggur fyrir að stóru sjúkrahúsin eru ekki í stakk búin til að taka á móti því aukna álagi sem af þessum tillögum hlýst. Ljóst er að ef boðaðar skipulagsbreytingar og stórfelldur niðurskurður ná fram að ganga er stórlega vegið að öryggi íbúa Skagafjarðar og slíku munum við aldrei una.“

Þarna er komið inn á þessar skipulagsbreytingar og auðvitað er eðlilegast að til séu stjórnir heilbrigðisstofnana og að allar slíkar stórar breytingar, hvort sem það eru skipulagsbreytingar, niðurskurðartillögur eða aðrar breytingar, séu unnar í samráði við þessar stjórnir.

Í ályktuninni segir svo, með leyfi frú forseta:

„Íbúafundurinn krefst þess að fyrirliggjandi niðurskurðartillögur verði dregnar til baka og hvetur heilbrigðisráðherra til samráðs á jafnræðisgrunni við hagsmunaaðila í héraði um allar stærri ákvarðanir er varða heilbrigðisstofnunina og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu í Skagafirði. Liður í því er endurreisn stjórna heilbrigðisstofnana með aðkomu heimamanna.“

Þetta er sambærilegur tónn og var á fleiri fundum. Ég hafði tök á því að vera á fundinum á Ísafirði þar sem það sama kom fram og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, sérstaklega á tímum eins og þeim sem við lifum nú á þar sem eru miklar hræringar og mikill niðurskurður, að slíkt sé unnið í fullu samráði við heimamenn. Í því sambandi legg ég mikla áherslu á að þetta mál fái hér skjóta og góða meðferð og stuðning helst allra þingflokka.

Ég legg til að tillögunni verði vísað til heilbrigðisnefndar að lokinni umræðu.