139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

41. mál
[18:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í umræðuna um þessa þingsályktunartillögu frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og fleirum. Þegar verið var að ræða lög um heilbrigðisþjónustu, þ.e. lög nr. 40/2007, þá kom til umræðu með hvaða hætti við gætum tryggt aðkomu heimamanna með einhverju móti, ekki endilega aðkomu að rekstri stofnananna heldur bara tryggt aðkomu þeirra með einhverjum hætti.

Það er að sönnu, eins og hv. flutningsmaður kom inn á, mikilvægt að heimamenn hafa oft öðruvísi sýn á það út á hvað þjónustan hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun gengur og geta komið með önnur sjónarmið en kannski þessi hreinu og kláru viðhorf fagmannanna, þ.e. þar koma inn viðhorf notenda til þjónustunnar. Það er þannig með þær heilbrigðisstofnanir sem nú eru víða um land að heimamenn hafa í fæstum tilfellum neina beina aðkomu að öðru leyti en hreinlega þegar þeir greiða atkvæði í þingkosningum. Þeir hafa í raun engin önnur áhrif á stefnumótun þessara stofnana.

Ég sat á sínum tíma í þeirri nefnd sem undirbjó heilbrigðislögin, áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi og man að þá ræddum við það hvort ekki væri hægt að finna leiðir til að tryggja þessa aðkomu með einhverju móti. Ég er í sjálfu sér ekki viss um að akkúrat sú leið sem lögð er til í tillögunni sé fullkomin, þ.e. að gamla fyrirkomulagið verði aftur tekið upp með einhverjum hætti. En mér finnst að það sé sjálfsagt mál að ræða þetta og mér finnst endilega að þessi tillaga eigi að fara til hv. heilbrigðisnefndar þar sem verður þá hægt að fara yfir þetta og jafnvel móta einhvers konar tillögur í samræmi við þann vilja og þá hugsun sem er í tillögunni.

Það eru atriði sem ég velti samt fyrir mér og langar til að spyrja hv. flutningsmann Ásmund Einar Daðason út í, hvort hann sjái fyrir sér að einhver kostnaður verði af þessu og þá hvaðan hann kæmi, hvort búið sé að hugsa þetta til enda eða hvort þetta séu fyrst og fremst áhugamannastjórnir sem þá væru í raun ekki launaðar sérstaklega. Einnig hvort þetta ráðgjafarhlutverk, sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni hér áðan, þýddi að stjórnir kæmu að einhverju leyti að stefnumótun viðkomandi stofnana eða hvort ráðgjöfin fælist meira kannski í, ja, hvað eigum við að gera núna þegar koma á okkur þessar niðurskurðarkröfur? Eða: Hvað eigum við að gera þegar og ef o.s.frv.? Hvort stjórnin væri að einhverju leyti meira langtímastefnumótunarapparat.

En eins og ég sagði áðan þá held ég að sú hugsun sem fram kemur í tillögunni sé góð. Það er mikilvægt, eins og hv. flutningsmaður nefndi, að við hleypum heimamönnum að borðinu í sem flestum málum. Við eigum að leyfa lýðræðinu að hafa meira vægi en það hefur í dag og þetta getur verið ein leið til þess. Ég fagna því ef tillagan kemur fyrir heilbrigðisnefnd að fá að taka þátt í umræðum um með hvaða hætti verði hægt að móta tillögur í samræmi við viljann í henni.