139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samráð við stjórnarandstöðuna.

[14:12]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður byrjaði á um flata niðurfærslu og að það hafi verið opnað á það verð ég að halda því fast til haga að ég gerði það með þeim hætti að ef samningar næðust við þá aðila sem þetta mál varðaði, sem eru lífeyrissjóðirnir, bankarnir og Íbúðalánasjóður, væri ég tilbúin að skoða það. Þannig opnaði ég á málið. Þótt að því kunni að koma að ég þurfi að höggva á hnútinn og leggja fram ákveðnar tillögur hlýt ég þó fyrst að vilja reyna að fara sáttaleiðina í þessu máli, heyra hvert aðrir vilja fara, hvað aðrir geta lesið út úr þeim reikningsniðurstöðum sem fást varðandi þessar átta, níu tillögur. Síðan er samráð í því fólgið að reyna að vinna þannig úr niðurstöðunni að bærileg sátt geti orðið um þær tillögur sem settar eru fram. Þetta tel ég að felist í að vinna í samvinnu og sátt að málinu.

Varðandi skattahækkanir sem hv. þingmaður nefnir verður hv. þingmaður að horfa til þess hvernig fjárlögin eru núna samansett. Við förum í niðurskurð að ¾ hluta, og að ¼ hluta í skattahækkanir. Ég hefði ekki viljað sjá meiri niðurskurð en við erum að fara í sem er okkur mjög erfiður. Við höfum farið mjög varlega í skattahækkanir samanborið við niðurskurðinn. Við eigum eftir að sjá hvernig það gengur.

Varðandi orkumálin, eins og hv. þingmaður lýsti, erum við að skoða þau. Hv. þingmaður veit að nefnd er í gangi, bæði á vegum iðnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra sem er að skoða eignarhaldsleiðir að því er varðar orkumálið og það að þrengja aðkomu fyrirtækja inn í orkufyrirtækin sem standa utan EES-svæðisins svo ég nefni dæmi. Við erum opin fyrir erlendri eignaraðild en það er auðvitað undir því fororði í þessu öllu saman (Forseti hringir.) að það sé meirihlutaforræði opinberra aðila að því er varðar orkufyrirtækin.