139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

gæðaeftirlit með rannsóknum.

69. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Af hverju viljum við efla rannsóknir? Af hverju viljum við efla þróunarstarfið? Af hverju viljum við efla vísindasjóði okkar? Jú, af því það hefur sýnt sig og sannað í áranna rás, hér heima og í öðrum löndum, að þegar við stuðlum að öflugri þekkingu, öflugum rannsóknum og vísindastarfsemi, þá stuðlum við að raunverulegri verðmætasköpun. Það er kannski út af fyrir sig ein af helstu ástæðum þess að við sjálfstæðismenn höfum lagt sérstaka áherslu á það í efnahagstillögum okkar að hlífa rannsóknum, þróun og nýsköpun við niðurskurði. Við teljum það vera tæki, við teljum það vera tól til að komast fyrr út úr þeim erfiðleikum sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir.

Á sínum tíma og í upphafi 10. áratugar síðustu aldar var farið í ákveðnar skipulagsbreytingar á vísindastarfi. Þá stofnuðum við nokkuð umdeild vísinda- og tækniráð. Það hefur sýnt sig í áranna rás að það starf hefur verið farsælt. Stjórnmálamenn, ráðherrar, atvinnulífið, fræðasamfélagið — allir eru dregnir að borðinu til að stuðla að því sameiginlega markmiði að efla innviði íslensks samfélags og setja okkur í fremstu röð meðal þjóða hvað varðar rannsóknir, þróun, vísindastarf og nýsköpun.

Stefna vísinda- og tækniráðs er að mínu mati mjög skýr. Þar á að efla samkeppnissjóðina. En hvað kemur á daginn? Samkeppnissjóðir á Íslandi fá einungis 12% af því fjármagni sem sett er í rannsóknir og þróun. Til háskólanna fara 88% en ekki síður til stofnana.

Ég tel að hæstv. menntamálaráðherra hafi tekið hárrétt skref með því að stofna svonefnt gæðaráð sem á að fara yfir rannsóknir og það starf sem á sér stað innan háskólanna. Ég held að það skipti miklu máli að styrkja gæðamálaeftirlit innan háskólanna.

Hins vegar stendur eftir að ekkert hefur þokast í sameiningu á samkeppnissjóðum. Við sjáum því verr og miður engar tillögur, ekkert innlegg í umræðuna um aðra sjóði sem tengjast vísindum og rannsóknum. Þá ekki síst einn stærsta sjóðinn, sem heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, um aukið verðmæti sjávarfangs eða AVS. Það makalausa gerðist þegar nýr sjávarútvegsráðherra tók til starfa, án þess að kasta rýrð á viðkomandi þingmann, þá skipaði hann þingmann sem formann stjórnar. Pólitísk skipun um úthlutun á fjármagni úr rannsóknasjóðnum.

Ég hélt að við hefðum það að markmiði að reyna að stuðla að því að allir sjóðir sem undir vísindin heyra fari að alþjóðlegum stöðlum, alþjóðlegum viðmiðum, og séu opnir þannig að menn sjái við hvað er miðað. Þegar maður les um úthlutanirnar og sér þær, með fullri virðingu fyrir þeim, finnst manni vera pólitísk fingraför á slíku. (Forseti hringir.)

Þess vegna spyr ég: Hvaða viðmið ætlar ráðherra að setja og hvaða viðmið hefur (Forseti hringir.) sjóðurinn sett sér varðandi það að koma til móts við þær alþjóðlegu (Forseti hringir.) kröfur sem við Íslendingar viljum undirgangast (Forseti hringir.) til að efla samkeppni á sviði vísinda (Forseti hringir.) og rannsókna?