139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

gæðaeftirlit með rannsóknum.

69. mál
[17:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil benda hv. þingmanni á að mjög ítarlegar upplýsingar um AVS-sjóðinn eru á heimasíðu hans. Hann gefur út skýrslu um starfsemi sína þannig að þær upplýsingar eru allar mjög opnar og aðgengilegar öllum.

Styrkir AVS-rannsóknasjóðsins eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsóknastofnunum og þróunar- og háskólastofnunum. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og hefur verið lögð áhersla á að formkröfur séu sambærilegar og kröfur Tækniþróunarsjóðs enda berast margar sömu umsóknir til beggja sjóða. Slíkt auðveldar umsækjendum umsóknarskrif og uppsetningu verkefna.

Tækniþróunarsjóður og AVS-sjóður hafa með sér gott samstarf þegar kemur að samfjármögnun stærri verkefna. Skipulag sjóðsins hefur verið með þeim hætti að auglýst er eftir umsóknum um styrki til verkefna sem auka verðmæti sjávarfangs og styrkja samkeppnishæfi sjávarútvegarins. Hægt er að sækja um tvenns konar verkefni, þ.e. stærri rannsókna- og þróunarverkefni til eins til þriggja ára, svo og smærri verkefni eða forverkefni sem skulu unnin á skemmri tíma en einu ári.

Einn umsóknarfrestur er á hverju ári fyrir stærri verkefni en tveir til þrír umsóknarfrestir eru ár hvert fyrir smærri verkefni. Faghópar AVS-sjóðsins leggja faglegt mat á umsóknir. Til grundvallar mati eru viðmið sem birt eru í leiðbeiningum sjóðsins. Umsóknir eru metnar af fjórum faghópum sjóðsins en þeir eru: Fiskeldishópur, markaðshópur, líftæknihópur og svo hópur sem tekur á verkefnum sem tengjast veiðum og vinnslu.

Allir þessir faghópar eru skipaðir sérfræðingum sem hafa menntun og þekkingu á viðkomandi sviðum. Umsóknarferli og matsferli AVS-sjóðsins er mjög sambærilegt við það sem gerist hjá öðrum samkeppnissjóðum, svo sem Tækniþróunarsjóði, og er lögð áhersla á að faghóparnir séu skipaðir jafningjum þeirra sem sækja um.

Stjórn sjóðsins forgangsraðar tillögum um útflutning styrkja á grundvelli umsagna faghópanna og gerir tillögur til ráðherra um úthlutanir á styrkjum til rannsókna í þágu verkefna sem auka verðmæti sjávarfangs og styrkja samkeppnishæfi sjávarútvegsins.

Lagðar hafa verið upp áherslur og síðasta ár hafa verið lagðar áherslur á styttri verkefni sem unnin skulu á tólf mánuðum. Opið er fyrir allar hugmyndir sem geta aukið verðmæti sjávarfangs með einum eða öðrum hætti. Dæmi um hugtök sem tengjast þessu eru orkusparandi veiðiaðferðir, vistvæn veiðitækni, fullvinnsla, nýjar afurðir, ný tækni, aukin nýting, gæði, bætt meðferð afla, öryggi sjávarfangs, matarferðamennska, hönnun, fiskeldi og innflutningur á nýrri þekkingu og líka markaðs- og fræðslustarf.

Einnig hafa umsækjendur möguleika á að sækja um styrk til að ráða til sín meistara- eða doktorsnema til að vinna að rannsóknum og þróun sem aukið geta verðmæti sjávarfangs.

Það er gríðarlega mikilvægt að íslenskur sjávarútvegur hafi sterka stöðu á alþjóðlegum mörkuðum og það er að mörgu að hyggja við framleiðslu og nýtingu íslenskra sjávarafurða. Það er ekki alltaf á færi einstakra fyrirtækja að stunda miklar og flóknar rannsóknir og nýsköpun og því mikilvægt að skapa grundvöll og tækifæri fyrir vísindamenn að vinna með íslenskum sjávarútvegi, báðum til hagsbóta.

Form umsókna er mjög svipað því sem lagt er til grundvallar hjá sjóðum sem eru í umsjá Rannís og ýmsum erlendum sjóðum nema hvað sérstök áhersla er lögð á að gera sér góða grein fyrir því hvers vegna sjóður sem styrkir verkefni til að auka verðmæti sjávarfangs eigi að styrkja tiltekið verkefni. Mikil áhersla hefur verið lögð á að hafa umsóknir einfaldar en samt þannig að gera þurfi skilmerkilega grein fyrir hugmynd, markmiði, afrakstri, samstarfsaðilum, þekkingu, verkáætlun og kostnaði.

Miðað er við að styrkir AVS-sjóðsins fjármagni allt að 50% af heildarkostnaði verkefnisins en Tækniþróunarsjóður og AVS hafa haft samstarf undanfarin ár og geta þá sjóðirnir í sameiningu fjármagnað allt að 70% af kostnaði verkefna.

Þegar umsækjandi hefur fengið styrk er gerður samningur á milli styrkþega og sjóðsins og er hann samhljóða samningum sem hafa verið notaðir hjá Rannís. Í honum eru tíundaðar ýmsar skyldur sem styrkþegi þarf að standa skil á, svo sem að halda verkáætlun og bókhald og annað því um líkt og eru þetta nákvæmlega sömu reglur og hjá Rannís. Einnig eru mjög skýrar reglur og kröfur um skil á skýrslum og afrakstri verkefnisins. Leiðbeiningar um þær er að finna hjá sjóðnum.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að hér er um mjög mikilvægan sjóð að ræða. Styrkur hans er hversu nátengdur hann er atvinnugreininni. Þeir sem þar eru í faghópum eru mjög nátengdir greininni sjálfri.

Ég er ekki þar með að segja það að Rannís eða sjóðirnir í umsjá Rannís séu ekki beint atvinnuvegatengdir en AVS leggur gríðarlega áherslu á þessa beinu (Forseti hringir.) tengingu og samstarf (Forseti hringir.) í þróunarverkefnum atvinnugreinarinnar sjálfrar. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé einmitt hin sterka hlið sjóðsins.