139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við stjórnmálamenn eigum að tryggja starfsemi fyrir orkufyrirtækin þannig að þau geti skilað eigendum sínum sem allra mestum arði og sem mestum verðmætum af nýtingu auðlinda hér á landi. Ég er ekki á því að það sé endilega okkar verkefni að segja þeim fyrir verkum um hvernig og hvort þau eigi að semja við einstaka kaupendur.

Ég hef lýst því, vegna þess að það hefur komið til pólitískrar umræðu, að ég sæi sjálf ekkert því til fyrirstöðu að Landsvirkjun kæmi tímabundið inn í Helguvíkurverkefnið til að brúa bil vegna þess að menn þurfa að keyra álverið upp með ákveðnum hætti. Jarðvarminn er gríðarlega viðkvæmur eins og menn vita og þarf að auka hann í skrefum. Þess vegna hef ég ekki séð neitt því til fyrirstöðu að Landsvirkjun kæmi þar að tímabundið en allt er það að mínu mati háð viðskiptalegum samningum á milli þessara aðila. Það er svo sannarlega von mín að samningum á milli þeirra sem nú sitja við samningaborðið, þ.e. HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur við Norðurál, fari að ljúka þannig að þeirri óvissu verði eytt. Ég tel forsenduna fyrir því að menn fari að horfa fram á veginn í málinu vera þá að við fáum málið milli HS Orku og Norðuráls úr gerðardómi í Svíþjóð og Orkuveita Reykjavíkur og Norðurál fari að taka næstu skref við að ljúka samningagerð sín á milli. Þá sjáum við hvað verður með verkefnin.

Landsvirkjun og aðkoma hennar: Ég þekki ekki til þess að neinn veruleiki sé orðinn í þeim efnum en mín skoðun er að það sé ekki nein fyrirstaða þar á ferð, a.m.k. tímabundið.