139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra gagnrýndi m.a. þá tillögu okkar sjálfstæðismanna að auka þorskaflann á yfirstandandi fiskveiðiári og taldi að það væri ekki nægilega vel rökstutt. Ég hafna því nú og vísa hæstv. ráðherra á að lesa greinargerðina með þessari tillögu þar sem þetta er mjög vel rökstutt, m.a. með fiskifræðilegum skírskotunum. En þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um álit hans á áformum hæstv. sjávarútvegsráðherra um að auka þorskaflann. Hæstv. ráðherra greindi frá þessum áformum sínum á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda og hæstv. ráðherra gekk lengra, hann var farinn að ráðstafa þeim tekjum sem fengjust af auknum þorskafla til tiltekinna verkefna sem hann m.a. greindi frá í ræðu. Í tillögum okkar sjálfstæðismanna er hins vegar ekki gert ráð fyrir þeim tekjuauka sem ríkissjóður nýtur af auknum þorskafla. Við göngum því skrefinu styttra en hæstv. sjávarútvegsráðherra og þess vegna væri mjög fróðlegt að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á þeim hugmyndum hæstv. ráðherra um að auka kvóta.