139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið óvenjujákvæð og hófstillt og maður hlýtur að gleðjast yfir því vegna þess að maður finnur að krafan í þjóðfélaginu er sú að þingmenn vinni meira saman að lausnum þeirra vandamála sem þjóðin glímir við. Ég ætla að fara í gegnum það.

Það varð hrun og í kjölfarið varð fyrst eignahrun. Hlutabréf og stofnbréf og slík urðu verðlaus, gjörsamlega verðlaus, þar töpuðu 60–70 þúsund heimili miklum fjármunum sem þau höfðu nurlað saman. Lífeyrissjóðirnir, sem líka eru í eign heimilanna, töpuðu miklu og þurfa að skerða lífeyri. Og ég vil benda á að fjármagnseigendur eru alltaf heimilin, bankar eiga ekki fjármagn. Útrásarvíkingar áttu ekki sparifé, það er alveg fráleitt, þeir tóku lán. Fyrirtæki eiga yfirleitt ekki sparifé. Ríki og sveitarfélög eiga ekki sparifé, það eru bara heimilin sem eiga sparifé og ég vil nefna að að meðaltali á hvert heimili 15 milljónir í lífeyrissjóðunum. Ef við deilum 120 þúsund heimilum upp í 1,8 milljarða eru það 15 milljónir sem hvert heimili á í lífeyrissjóðunum.

Íbúðaverð lækkaði svo heilmikið í kjölfarið. Það hafði reyndar hækkað mikið áður, eins og hlutabréfin reyndar, og það má telja að það hafi orðið 35% raunlækkun frá því að það var hæst. Gjaldþrot í kjölfarið og stöðvun fyrirtækja, uppsagnir o.s.frv. ollu verulega miklu áfalli. Gengistryggðu lánin, sem nú er búið að laga, ollu miklu áfalli meðan það stóð, höfuðstóllinn tvöfaldaðist. Nú er Hæstiréttur búinn að taka á því máli, a.m.k. hluta af því, og þar af leiðandi hefur sú staða lagast. Má því segja að við búum nú við það ástand að hér séu eingöngu verðtryggð lán.

Það sem situr eftir er atvinnuleysið sem varð út af hruninu, út af gjaldþrotum fyrirtækja og vegna þess að fyrirtækin sögðu upp fólki. Það varð launalækkun hjá einkafyrirtækjum og jafnvel hjá ríkinu líka, yfirvinna hvarf, og menn voru sumir hverjir, frú forseti, í tveimur eða þremur störfum fyrir hrun og halda eftir einu starfi. Þetta var óskaplega mikið áfall fyrir heimilin og er í reynd forsendubresturinn sem við erum að tala um, þ.e. missir atvinnu eða lækkun tekna. Heimili sem voru með barnabótum og húsnæðisbótum, vaxtabótum og húsaleigubótum, kannski með 700 þús. kr. til ráðstöfunar á mánuði duttu allt í einu niður í 300 þús. kr. ef báðir aðilar urðu atvinnulausir, 400 þús. kr. ef annar varð atvinnulaus eða 500 þús. kr. Þetta var alla vega mikið hrun upp á hundruð þúsunda á mánuði fyrir einstök heimili og þau sem hafa haldið fullri vinnu hafa orðið fyrir 16% kjararýrnun engu að síður. Þetta er forsendubresturinn, þar sem menn töpuðu mörg hundruð þúsundum á mánuði, einstök heimili. Hækkun lána vegna verðbólgu er ekki nema brot af þessu. Hún er kannski 20% á lánum, ef menn borguðu í hverjum mánuði 200 þús. kr. er það 40 þús. kr. hækkun á lánum, en ég er að tala um að tekjurnar hafi lækkað um mörg hundruð þúsund. Þarna var því forsendubresturinn.

Frú forseti. Afleiðingin af þessu er sem sagt sú að við Íslendingar þurfum og Alþingi að leggja grunn að því að við höfum möguleika á því að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu, vegna þess að forsendubresturinn er þar. Það eru hagsmunir heimilanna að við sköpum atvinnu. Svo vil ég benda á að vinna núna á þessu versta ári eftir hrun er miklu meira virði fyrir heimilin en vinna eftir tíu ár, fimmtán ár eða tuttugu ár. Þess vegna er það réttlætanlegt að við lítum á þær eignir sem ríkið á eða þjóðin. Hvaða eignir eru það? Það eru fyrirtæki sem Landsbankinn á, þau eru ekki vel seljanleg í dag, það yrði brunaútsala og borgar sig ekki. En við eigum óskattað fé lífeyrissjóðanna. Ríkið á hluta í lífeyrissjóðunum vegna þess að þegar lífeyrir er greiddur út fær ríkið tekjur. Það getur náð í þessar tekjur núna, þessa eign sína, og notað til þess að skapa atvinnu núna.

Svo eigum við kvóta. Við höfum byggt upp fiskstofnana, menn trúa að þeir séu að byggjast upp og við getum byggt þá upp pínulítið hægar án þess að nokkur geti gagnrýnt það. Það ætlum við að gera með því að auka kvótann í eitt skipti um 35 þús. tonn til þess að skapa atvinnu núna en ekki eftir fimm eða tíu ár.

Síðan er það orkan sem við eigum. Við getum virkjað orkuna hraðar og skapað alls konar tækifæri og ég er þá ekki eingöngu að tala um ál því að sumir virðast ekki sjá neitt annað en ál. Ég sé gagnaver, ég sé álþynnuverksmiðju og ég sé heilmikið af tækifærum til að nota orku og ekki bara í stóriðnaði. Við eigum að nota þetta tæki til að skapa atvinnu núna.

En það sem við eigum að gera fyrst og fremst er að draga til baka allar skattahækkanir sem vinstri stjórnin hefur tekið upp vegna þess, eins og Lilja Mósesdóttir sagði áðan — hún sá ekkert nema dökkt fram undan — að það eru svo miklar skattahækkanir. Menn eru haldnir þeirri meinloku að það sé engin leið nema að auka skatta. Það er reyndar til önnur leið, það er að skera niður, en svo er til þriðja leiðin og það er að stækka kökuna. Ef við stækkum kökuna núna á þessu ári eða næsta ári mun bjartsýni vaxa með þjóðinni og þá munu fyrirtæki og einstaklingar geta borgað hærri skatta í kjölfarið vegna þess að það skapast atvinna. Ég minni á að hver einasti maður sem hættir að vera atvinnulaus og fer að vinna hættir að taka bætur upp á 2 milljónir á ári og fer að borga skatta upp á 1 milljón. Staða ríkissjóðs batnar þannig um 3 milljónir fyrir hvern einasta mann sem fær vinnu og hættir að vera atvinnulaus, að ég tali ekki um allt fólkið, það eru tíu manns á dag, sem flytur til útlanda, margt hvert hátekjufólk eins og læknar og slíkir, og hættir að borga skatta á Íslandi sem er mjög varasamt.

Markmiðið er það að lækka skatta, og draga alla þessa skatta til baka sem ríkisstjórnin hefur lagt á, til þess að búa til atvinnu, vegna þess að fólk gerir ekki nema tvennt eða þrennt við tekjurnar sínar, það borgar skatta, það eyðir og það sparar. Meira geta menn ekki gert við tekjurnar sínar. Ef skatturinn er lækkaður eykst neyslan eða sparnaðurinn, ef sparnaðurinn vex eykst framboð á peningum meira til fyrirtækjanna og ef eyðslan vex eykst veltan í þjóðfélaginu. Það er því ekkert nema gott við það að lækka skatta, enda held ég að engri þjóð hafi dottið í hug að skatta sig út úr kreppu. Það er mjög fráleit hugsun.

Margir af þeim sköttum sem hafa verið lagðir á leggjast á heimilin, líka lágtekjuheimilin. Fólk frá lágtekjuheimilum þarf að keyra í vinnuna og borga bensín, það þarf að fara í sturtu og borga orkuskattana og persónuafslátturinn, sem samið hafði verið um að fylgdi verðlagi, fylgir ekki lengur verðlagi og það kemur verst við láglaunaheimilin. Ef við afnemum alla skatta gerum við sérdeilis vel við þá sem eru með lægstu launin, alla vega hlutfallslega.

Loks eru það skattar á fyrirtæki, allar skattaráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafa beinst að því að skattleggja fyrirtækin. Tryggingagjaldið er bein skattlagning á atvinnu. Hækkun fjármagnstekjuskatts gerir ekkert annað en að letja menn til að fjárfesta í fyrirtækjum o.s.frv. Séreignarsparnaðurinn gæti gefið okkur 80 milljarða til ríkissjóðs og ég vil undirstrika að hann mundi gefa líka 40 milljarða til sveitarfélaganna. Þar er nú heldur hart í ári, frú forseti, einmitt núna sem stendur. Til framtíðar mundi hann svo gefa 7,5 milljarða á hverju ári til ríkissjóðs og 3,5 milljarða til sveitarfélaganna og þá geta þau ráðið við eins og það t.d. að taka yfir málefni fatlaðra og önnur slík mál.

Það sem mest er um vert er að hugmyndir Sjálfstæðisflokksins gefa þjóðinni sýn til framtíðar, bjartari sýn en einhverja stöðnun sem leiðir okkur í hringrás sem verður alltaf alvarlegri og alvarlegri. Þetta er sýn til framtíðar til næstu fimm, tíu, tuttugu ára um það hvernig við viljum sjá framtíðina, enda heita tillögurnar „Gefum heimilum von“.