139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[15:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur jafnframt fyrir það frumkvæði að leggja þessa tillögu aftur fram. Ég er einn af meðflutningsmönnunum, konunum, á málinu og tel þetta mjög gott mál og skipta miklu máli, ekki hvað síst núna þegar við sjáum að mjög mikið hefur verið um uppsagnir starfsmanna, að tryggja betur réttindi þeirra við uppsagnir.

Það sem líka gerði það að verkum að ég taldi ástæðu til að vera meðflutningsmaður að tillögunni er að það kemur mjög skýrt fram í henni að það eru ákveðnar undanþágur varðandi samþykktina sem gera það að verkum að það er hægt að tryggja þennan sveigjanleika sem við höfum lagt svo mikla áherslu á á íslenskum vinnumarkaði, t.d. hvað varðar tímabundnar ráðningar, þ.e. þá sem eru ráðnir tilfallandi um skamman tíma. Það er líka hægt að taka undan ákveðna flokka launafólks ef ráðningarkjör þeirra og starfsskilyrði lúta sérstakri skipan sem tryggir þeim ekki síðri vernd en framkvæmd þessara reglna.

Ég vil líka leggja sérstaklega áherslu á það sem kom fram í framsögu hv. þm. Lilju Mósesdóttur, þótt það sé komið inn í samþykktir í kjarasamningum milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins að upplýsa þurfi um ástæður uppsagnar er ekki sagt hvaða ástæður séu í lagi, heldur vegna hvaða þátta megi ekki segja starfsmanni upp. Það tryggir að allar ástæður til að segja starfsmönnum upp eru í raun í lagi. Ég held að það þurfi að skerpa svolítið á því. Öryggistrúnaðarmanni var nýlega sagt upp eins og við vitum. Þótt það hefði verið möguleiki að segja öðrum starfsmönnum upp vegna samdráttar var samt sem áður þessum starfsmanni sagt upp. Ekki hvað síst skiptir það máli sem kemur fram í samþykktunum um málsmeðferðarkerfið. Þegar starfsmaður er búinn að fá ástæðuna fyrir því að honum er sagt upp er honum tryggð ákveðin málsmeðferð til þess að verja sig gegn athugasemdum og hann getur þá vísað uppsögninni til hlutlauss aðila og átt jafnvel rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar.

Í þessum samþykktum og mörgum öðrum er síðan stjórnvöldum boðinn ákveðinn sveigjanleiki varðandi það hvernig þeir útfæra samþykktina, koma með sína eigin pólitísku stefnumörkun varðandi uppsagnir launamanna og þurfa þá, ef þessi ályktun verður samþykkt, að gefa okkur hér í þinginu líka ákveðna tilsögn um það hvernig eigi að vinna þessar reglur. Það er það sem kom fram hjá Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála, að ekki er bara hægt að útbúa ákveðnar leiðbeiningarreglur, heldur þarf jafnvel í einhverjum tilvikum að breyta lögum. Það er það sem við leggjum hér til, að ríkisstjórnin vinni að því að leggja fram mál til þess að hægt sé að fullgilda þessa samþykkt. Ég tel það sérstaklega mikilvægt, eins og kemur fram í lokin, við núverandi aðstæður þar sem starfsöryggi fólks er mjög lítið og að mínu mati eru bara sjálfsögð mannréttindi að starfsmaður sem er sagt upp fái upplýsingar um ástæðuna. Fólk upplifir fátt erfiðara en einmitt uppsögn.