139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:29]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu en ég er komin upp til að lýsa stuðningi við frumvarpið og þakka flutningsmanni fyrir að leggja það fram. Ég styð þetta heils hugar. Eins og við vitum er í fyrsta sinn í langan tíma mikið atvinnuleysi á Íslandi og mikið frost í atvinnulífinu og það er kallað á aðgerðir.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi ekki að vera í því að skapa störf. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem fyrirtæki geta vaxið og dafnað. Stjórnvöld geta einmitt stuðlað að því umhverfi með því að skapa skattalegt hagræði fyrir fyrirtæki og hvata til að stofna fyrirtæki og að þau þróist í ákveðnar áttir.

Það er náttúrlega líka þannig að árangur af rannsóknum, þróun og nýsköpun er ekki alltaf í samræmi við það fjármagn sem lagt er í rannsóknirnar eða nýsköpunina og þróunina. Fyrir lítil og ný fyrirtæki, því oft eru þetta einstaklingsfyrirtæki eða fámenn fyrirtæki og menn byrja með tvær hendur tómar, eru 5 milljónir mikið fé. Það eru einmitt þessi litlu fyrirtæki sem þurfa frekar aðstoð en stór fyrirtæki og stór fyrirtæki ættu kannski frekar að geta staðið fyrir rannsóknum sínum og þróunarstarfi sjálf. Þess vegna finnst mér þessi lagabreyting sem lögð er til virkilega til bóta og þakka enn og aftur fyrir frumkvæðið.