139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, við verðum seint líklega afar sammála um þetta, ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson. En það dugir nú ekki annað en að reyna á þessum stað.

Sem betur fer hafa tækni og samgöngur og breytingar á samfélaginu valdið því að ýmsir möguleikar við stjórnsýslu hafa opnast á ýmsum stöðum á landsbyggðinni sem ekki voru fyrir hendi áður eða í miklu minna mæli. Til dæmis um það, svo ég hrósi nú þeim manni, er það sem Björn Bjarnason gerði á lokaárum sínum sem dómsmálaráðherra. Hann skipulagði sýslumannsembættin þannig að hvert þeirra tók að sér ákveðinn málaflokk, ákveðið hlutverk sem hægt er að leysa án persónulegrar nærveru þeirra sem um ræðir.

Ég tel að það hafi gefist vel. Ég ætla ekki fella neinn dóm um nákvæmlega þær stofnanir sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson tiltók. En það er eðli stjórnsýslunnar og hvað varðar skipulagningu, samstarf og stefnumótun, að þrátt fyrir tæknina sem komin er þá verða að vera persónuleg samskipti, það verður að vera stutt í gagnasöfn og fundaaðstöðu af ýmsu tagi. Þess vegna heldur það gildi sínu sem hefur verið uppi frá fornu fari að hvert land þarf ákveðna höfuðborg og miðstöð þjóðlífs. Það kemur áþreifanlegast fram í því að aldrei kvarta landsbyggðarmenn meira en þegar þeir þurfa að sækja þjónustu á annan stað úti á landi.