139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það eru nokkur atriði sem ég hef athugasemdir við.

Í fyrsta lagi sagði hún að þjóðin mundi gefa álit sitt á umsókninni þegar það væri búið. Þetta er ekki rétt og ég vil biðja hv. þingmann að lesa 48. gr. stjórnarskrárinnar sem hún og hæstv. utanríkisráðherra hafa bæði svarið eið að. Í þeirri grein stendur, með leyfi frú forseta:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Hvað segir þetta? Það segir það að ef kjósendur þeirra samþykkja eitthvað í þjóðaratkvæðagreiðslu þá eru þeir ekki bundnir af því. Hv. þingmenn eru ekki bundnir af því. Og ef kjósendur þeirra segja eitthvað annað eru þeir heldur ekki bundnir af því. Þeir eiga bara að fara eftir sinni eigin sannfæringu nákvæmlega eins og gerðist hér þegar kosið var um þá þingsályktun sem Alþingi illu heilli samþykkti, að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Svo gerist það að þetta eru engar aðildarviðræður. Margir sem samþykktu þetta lýstu því hér yfir í ræðustól, ég man eftir því og get talið þá upp, að þeir ætluðu að kíkja í pokann, ef svo má segja, og sjá hvað kæmi út úr viðræðunum. En nú erum við ekkert í svoleiðis viðræðum, Evrópusambandið segir að við séum að aðlagast Evrópusambandinu en ekki að semja um eitt eða neitt. Ég vil því benda hv. þingmanni á 48. gr. stjórnarskrárinnar sem við öll höfum svarið eið að og biðja hana og ég ætla að biðja alla um það að tala ekki um að þjóðin taki ákvörðun um hvort Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki.