139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann sem formann utanríkismálanefndar hvort það sé ekki eðlilegt að bæði sjónarmiðin fái jafnmikla peninga, að Heimssýn fái þá jafnmikið og allt hitt batteríið sem vinnur að inngöngu.

Í öðru lagi vil ég benda honum á að ég hitti forritara um daginn sem er atvinnulaus en hann sér allt í einu mikla möguleika í því að fá starf og vinna sem forritari við að koma öllum þeim kerfum á sem Evrópusambandið er að vinna að. Ég hugsa að það hafi nú dálítið áhrif á hann því að hann veit jú hver borgar.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann af því að hann viðurkenndi eða samþykkti að miklir peningar gætu haft áhrif, hafa þá miklir peningar áhrif á sannfæringu hans?