139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn spurði mig reyndar líka að því áðan hver sannfæring mín væri í þessu máli. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan og ég byggi það á mati á okkar eigin hagsmunum. Ég tel að þar vegi mjög þungt auðlindamálin, sjávarútvegsmálin ekki síst, margvíslegir þættir landbúnaðarmála og byggðamála. Ég horfi líka á ýmsa aðra málaflokka sem ég tel reyndar að séu betur komnir innan Evrópusambandsins í dag en hjá okkur og nefni þá sérstaklega umhverfismál og náttúruverndarmál.

Það hefur mótað afstöðu mína til Evrópusambandsins alla tíð að ég hef talið að ríkari hagsmunir væru fyrir okkur utan Evrópusambandsins en innan. Sú sannfæring mín hefur ekki breyst. Ég vil engu að síður að við göngum ferlið sem Alþingi ákvað að setja af stað til enda og fáum niðurstöðuna í hendur þannig að þjóðin kjósi um hana. Afstaða manna til aðildar að Evrópusambandinu getur ráðist af mismunandi þáttum. Sumir láta sjávarútvegsmálin ráða, einhverjir landbúnaðarmálin, enn aðrir umhverfismálin eða gjaldmiðilsmálin (Forseti hringir.) og sumir bara prinsippmálin yfirleitt, hvort þeir vilji vera þarna inni eða ekki. Hver og einn verður að fá að taka afstöðu (Forseti hringir.) á eigin forsendum.