139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég nefndi það hér og hæstv. ráðherra samþykkti það að lokum að 73 þús. heimili í landinu skulda húsnæðislán. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að vera mér sammála um að þúsundir af þessum heimilum skulda einnig bílalán, skulda Lánasjóði íslenskra námsmanna, skulda meðlagsgreiðslur og yfirdráttarlán þannig að það er alveg ljóst að þegar við tökum neysluviðmið eða -stuðul Hagstofunnar þar sem segir að 20 þús. heimili af þessum 73 þús. séu í verulegum vanda bara vegna húsnæðisskuldanna erum við að tala um miklu stærri hóp sem á mjög erfitt með að ná endum saman á Íslandi í dag.

Það gengur ekki tveimur árum eftir hrun að við skulum ekki hafa aðgang að upplýsingum um hve stór hluti þessa hóps skuldar meira en húsnæðisskuldir. Ég tel að ríkisstjórnin verði að gjöra svo vel að fara að horfast í augu við ískaldan raunveruleikann, hver hann er, og við verðum að fara að hlusta á kröfu (Forseti hringir.) ungs fólk og fólks á öllum aldri sem er að reyna að ná endum saman. Hún er sú, væntanlega að lágmarki, að menn hafi einhverja yfirsýn yfir þann vanda sem blasir við þessum fjölskyldum.