139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

flutningur málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga.

[14:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hafa staðið yfir viðræður í alllangan tíma milli ríkis og sveitarfélaga um yfirtöku á málefnum fatlaðra. Þær viðræður hafa gengið ágætlega, og bara vel að mörgu leyti, og kannski ekki mikill ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga um yfirtöku málaflokksins. Það er helst eitt atriði sem stendur út af. Það sem ég tel reyndar líka mikilvægt og hefur liðkað til fyrir þessum viðræðum er að það á að gera samstarfsáætlun um hvernig gangi að fylgja þessu eftir og eins eru sett endurskoðunarákvæði inn í samkomulagið milli ríkis og sveitarfélaga. Það tel ég mjög mikilvægt, sérstaklega til að eyða allri tortryggni hjá sveitarfélögunum, ekki síst hvað varðar fjárhagskostnað sveitarfélaganna við að yfirtaka málefni fatlaðra.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga:

1. Hvenær stendur til að skrifa undir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um flutning á málefnum fatlaðra?

2. Hvenær hyggst hæstv. ráðherra leggja fram frumvarp um flutninginn á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna, sérstaklega í ljósi þess að tíminn líður svo hratt? Það eru ekki nema 16 þingdagar eftir til áramóta og þetta mál á eftir að fara til nefnda og umfjöllunar þar.

3. Erfiðast hefur reynst að ná samkomulagi um stéttarfélagsaðild starfsfólks málaflokksins og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvar standa þau mál í dag?