139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þingmanns sem hann lét falla í sínu ágæta málir. Ég vil sérstaklega taka undir þá áherslu sem hann lagði á frumkvöðlakraftinn. Ég hygg að það sama hafi átt við þegar hann gegndi ráðherraembætti eins og er í minni ráðherratíð að fáir hafi komið inn til ráðherra og greint frá hugmyndum sínum og áformum af meiri ákafa og af meira kappi en þeir sem eru að velta fyrir sér skeldýrarækt. Margir eru í því í smáum stíl, fara varlega í það og taka ekki of mikla fjárhagslega áhættu. Það er einmitt sá drifkraftur, sá frumkvöðlakraftur, sem byggir upp og drífur áfram nýja atvinnugrein þó svo að hún þurfi oft að leggja ýmislegt á sig til að slíta barnsskónum.

Ég vildi bara taka þetta fram vegna þess að sú er raunin með svona atvinnugreinar að þær byggja á þessum krafti.

Ég tek undir það að nefndin fari yfir þessi mál í heild sinni. Þó að skipulagsmálin heyri ekki undir þær stofnanir sem hér er fjallað um, sem taka til þessa lagafrumvarps og heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það eru náttúrlega sveitarfélögin sem fara með lokaskipulagsvaldið þannig að ekkert er gert án þess að þau komi þar að og leggi sitt endanlega mat þar á. Allar þessar leyfisveitingar sem hv. þingmaður taldi upp — já, þetta er ofboðslegur frumskógur, en þetta eru nú bara veruleikinn og ekkert annað að gera en að styrkja lagalega umgjörð þess (Forseti hringir.) að viðkomandi geti þá byggt upp sína atvinnugrein.