139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landeyjahöfn.

[10:46]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í lok júlí á þessu ári var Landeyjahöfn tekin í notkun sem olli að sjálfsögðu miklum stakkaskiptum í samgöngumálum á milli lands og Eyja, en frá því að hún var tekin í notkun hafa orðið þarna meiri tafir og frátafir en gert var ráð fyrir í fyrstu. Er þar að mestu um kennt auknum sandburði vegna gosefna og aurburðar úr Markarfljótinu vegna náttúruhamfara og eldgoss þarna fyrr á árinu.

Þetta hefur að sjálfsögðu haft gífurlega mikil áhrif, valdið miklum vonbrigðum af því að væntingarnar voru miklar, en ljóst er að um er að ræða byrjunarörðugleika sem þarf að vinna sig út úr. Meðan siglir báturinn milli Eyja og Þorlákshafnar að mestu leyti. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort fyrir liggi hjá ráðuneytinu eða Siglingastofnun mat á notkunarmöguleikum hafnarinnar á næstu vikum og mánuðum, af því að núna stefnir inn í háveturinn, og sérstaklega þá hvaða endurbætur og breytingar þarf að ráðast í til að höfnin skili þeim mikla ávinningi sem hún mun að sjálfsögðu skila í framtíðinni og þarf að skila sem allra fyrst af því að mikið er undir í þessu máli.

Hefur stofnunin og ráðuneytið lagt mat á það, því að þetta skiptir miklu máli, bæði hvað varðar kostnað og hvaða endurbætur þyrfti að ráðast í á gerð hafnarinnar, ef þá einhverjar, til að mæta breytingum, skilyrðum og þeirri reynslu sem er að komast á notkun hafnarinnar á þessum fyrstu vikum og mánuðum? Það skiptir miklu máli að þessar upplýsingar liggi fyrir og að áfram sé samstaða um að byggja upp þessa höfn. Hún er með meiri samgöngumannvirkjum sem við Íslendingar höfum nokkurn tímann ráðist í og alveg klárlega ein af þeim mikilvægustu. Höfnin gjörbreytti öllum samgöngum til hins betra milli lands og Eyja og mun örugglega gera um áratugaskeið. Þess vegna þarf að liggja fyrir með hvaða hætti (Forseti hringir.) þarf að standa að breytingum á rekstrinum.