139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina þó að mig hryllti svo sem við mörgu sem hann las þar upp. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um vísitöluáhrifin af þessum skattbreytingum, þ.e. hvað mun vísitalan hækka um gangi þetta frumvarp eftir og verði samþykkt?

Eins munu ráðstöfunartekjur heimilanna minnka um 8,7 milljarða kr. verði þetta frumvarp samþykkt þó að reynt sé að fara í reiknikúnstir um að áframhaldandi útgreiðslur á séreignarlífeyrissparnaði muni draga þetta til baka um u.þ.b. 6. Það eru þá bara framtíðartekjur heimilanna, það er ekkert annað, og því vil ég líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hæstv. ráðherra finnist ekki komið nóg af skattpíningu á heimilin og fyrirtækin. Er hann ekki með eitthvert smáóbragð þegar hann leggur til enn þá frekari skattahækkanir?