139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja.

238. mál
[19:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna um frumvarp til laga um úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Það má kannski segja að ekki sé seinna vænna að ráðast í slíka úttekt núna tveimur árum eftir að efnahagshrunið átti sér stað þegar lán heimila stökkbreyttust og rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja breyttist í grundvallaratriðum, liggur við á einni nóttu. Það er vissulega gagnrýnivert að ríkisstjórnin skuli ekki vera komin lengra í þeirri vegferð að kortleggja stöðu heimila og fyrirtækja en svo að við þurfum að bíða fram á árið 2011 til að leggja mat á hver í raun og veru fjárhagsstaða heimilanna og fyrirtækjanna er. Við höfum á vettvangi þingsins spurt margra spurninga í tengslum við fjárlagafrumvarpið, um það hvað ríkisstjórnin telji að annars vegar heimilin og hins vegar atvinnulífið þoli í auknar álögur. Mér finnst varla boðlegt ef Alþingi Íslendinga ætlar að ganga þannig frá málum er snerta fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 að á heimilin og fyrirtækin verði settar álögur upp á á þriðja tug milljarða króna á næsta ári ofan á allar þær hækkanir sem hafa dunið á fólki og fyrirtækjum á þessu ári. Aðeins svo ég fari yfir það hvernig ég rökstyð þá tölu upp á 24–25 milljarða kr. er í bandormi er varðar tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem fjármálaráðherra lagði fram kveðið á um almennar skattahækkanir, aðallega á fyrirtækin í landinu, upp á 6,3 milljarða kr. Síðan á heimild til handa almenningi til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði að skila ríkissjóði 3 milljörðum kr. aukalega. Þá erum við komin upp í 9,3 milljarða kr.

Síðan eru aðrir hlutir sem ríkisstjórnin hefur kannski með vilja leynt og ekki tekið tillit til. Það var gert samkomulag við Alþýðusamband Íslands fyrir nokkru um að skattleysismörk mundu hækka í takt við verðlag, og sá „sparnaður“ sem ríkissjóður nær fram með því að frysta skattleysismörkin á næsta ári er heilir 8 milljarðar kr.

Í þriðja lagi er lagt til að bótaflokkarnir verði líka frystir. Þar erum við að tala um barnabætur og vaxtabætur. Við erum líka að tala um bætur almannatrygginga er snerta aldraða og öryrkja og sá pakki er verðlagður á 6–7 milljarða kr., þ.e. ríkissjóður ætlar að spara sér þau útgjöld gagnvart þeim hópum. Þá erum við komin í sparnað og auknar skatttekjur á árinu 2011 fyrir ríkissjóð upp á 24–25 milljarða kr.

Það er eðlilegt að við ræðum það í tengslum við þetta frumvarp hér hvort ekki sé nauðsynlegt áður en við afgreiðum fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár að við náum almennilegri úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Það hefur komið fram, kom fram held ég í síðustu viku, í tölum frá Hagstofunni að annað hvert íslenskt heimili hefur á síðustu 12 mánuðum glímt við erfiðleika við að ná endum saman. Það hlýtur að segja okkur að staða margra á Íslandi er í dag, eins og við vitum mörg, mjög erfið og grafalvarleg.

Þegar við fáum fréttir um að önnur hver íslensk fjölskylda á í erfiðleikum með að ná endum saman á 12 mánaða tímabili og sjáum það frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár, sem gerir ráð fyrir að kaupmáttur íslensks almennings muni lækka um 1% á næsta ári ofan á alla þá erfiðleika sem blasa við heimilunum í dag, þá forgangsröðun að skerða vaxtabætur og barnabætur og skerða svo sérstaklega tekjur aldraðra og öryrkja, er ómögulegt annað en að fá það út að vanskil heimilanna muni enn frekar aukast. Erfiðleikarnir við að ná endum saman verða enn meiri fyrir vikið. Þess vegna er því miður engin heildaryfirsýn sem ríkisstjórnin hefur núna tveimur árum eftir hrun gagnvart alvarlegri skuldastöðu heimila og fyrirtækja.

Það eru að verða einir 20 mánuðir síðan framsóknarmenn lögðu fram tillögur í þinginu um almennar aðgerðir í þágu skuldugra heimila og fyrirtækja. Því miður voru þær áætlanir og tillögur sem við lögðum fram slegnar út af borðinu, reyndar með ódýrum hætti, en þá töluðum við framsóknarmenn um skuldavanda heimila og fyrirtækja. Nú er þessi skuldavandi orðinn það mikill að hann er orðinn að mjög alvarlegum greiðsluvanda fyrir heimilin og fyrir fyrirtækin. Stökkbreyttu lánin og höfuðstólar þeirra hafa hækkað svo mikið að fólk á í erfiðleikum með að standa í skilum. Það sem verra er er að með þeirri skattstefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt á undangengnum tæpum tveimur árum hefur lausn ríkisstjórnarinnar nær einvörðungu verið sú að hækka álögur, gjöld og skatta.

Við erum farin að sjá birtingarmynd þess í dag í því formi að allt of mikil skattlagning í samfélaginu er farin að leiða til þess að neðanjarðarhagkerfið er farið að blómstra. Við heyrum það — og ég trúi ekki öðru en að flestallir þingmenn og þeir sem á þetta hlusta hafi heyrt það að menn eru farnir að brugga í stórum stíl. Það er að verða dálítið blómlegur atvinnuvegur en það versta er að sú framleiðsla sem þar á sér stað er ekki skattlögð með neinum hætti. Umsvif Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins hafa minnkað sem því nemur og allt þetta leiðir það af sér að umsvifin minnka, tekjur ríkissjóðs minnka og þar með eigum við í miklu meiri erfiðleikum með að standa undir skuldum ríkissjóðs sem er skuldugur í dag. Við þurfum að ná einhverri vitundarvakningu hjá ríkisstjórninni þegar kemur að þessum málum sem eru grafalvarleg. Mér finnst hafa skort á það hjá ríkisstjórninni að horfa til þriðju leiðarinnar sem er sú að breikka skattstofnana. Það er einfaldlega ekki hægt að skera og skera niður og hækka og hækka skattana. Sú aðferðafræði gengur einfaldlega ekki upp.

Það var áhugavert í morgun þegar ríkisstjórn Írlands tilkynnti um aðgerðir á næsta ári í tengslum við fjárlagafrumvarpið þar, og þar var sagt: Jú, við þurfum að einhverju leyti að hækka gjöld og hækka skatta á einstaklinga en við munum reyna eftir fremsta megni að forðast að hækka skatta á atvinnulífið. Þar er skilningur á því að því hagstæðara umhverfi sem við búum atvinnulífinu, hvort sem það er hér á landi eða á Írlandi, þeim mun öflugra verður það. Þannig ætla Írar að fara í að örva atvinnulífið í stað þess að hækka skattana og ef við færum í slíkar aðgerðir hér í stað þess að hækka tryggingagjaldið upp úr öllu valdi og auka skattlagningu á fyrirtækin væri kannski hægt að snúa af þessari braut, að horfa upp á það að 13–14 þús. manns á Íslandi eru án atvinnu í dag. Við gætum þá horft upp á atvinnuskapandi framkvæmdir, að fyrirtækin og hjól atvinnulífsins færu að nýju af stað. Eins og skattalegt umhverfi fyrirtækja er í dag, og þá nefni ég sérstaklega tryggingagjaldið sem er mjög hár skattur á íslenskt atvinnulíf, sjá menn ekki mikinn fýsileika eða mikla kosti í því að ráðast í íslenskar framkvæmdir í íslensku atvinnulífi.

Annað í þessu samhengi sem mér finnst nauðsynlegt að nefna er að í ljósi þess að við höfum í nokkurn tíma búið við gjaldeyrishöft sem er ákveðið samkomulag milli ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja það gríðarlega háa vaxtastig sem hefur einkennt íslenskt efnahagslíf undangengna mánuði. Það hefur leitt til þess að bankarnir eru stútfullir af peningum, menn hafa séð hag sínum miklu betur borgið í því að hafa fjármuni sína á bankabókum á mjög háum vöxtum í ljósi þess að stýrivextir Seðlabankans hafa verið háir. Þetta vaxtastig sem við búum við skerðir að sjálfsögðu samkeppnishæfni landsins. Á meðan bankarnir hafa verið stútfullir af peningum höfum við horft á atvinnustigið lækka, störfum í landinu hefur núna á einu og hálfu ári fækkað um 22 þús. Því miður er það svo að 10 manns flytja á degi hverjum úr landi. Þessari þróun, frú forseti, verðum við einfaldlega að snúa við.

Þegar við tölum um samkeppnishæfni landsins og íslensks atvinnulífs — af því að við erum í þessu frumvarpi að ræða um stöðu fyrirtækjanna í landinu — er náttúrlega mikil hindrun að íslenskt atvinnulíf skuli borga 5–6% hærri vexti vegna starfsemi sinnar en önnur sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum. Þar er vaxtastigið jafnvel 0%. Við sem búum við höft, þar sem engin rök eru fyrir því að hafa svona háa stýrivexti, búum atvinnulífinu það umhverfi að við höfum því miður ekki náð að fjölga störfum í samfélaginu. Þeim hefur þvert á móti stórfækkað. Það er því eðlilegt að menn spyrji sig hvort þessi leið sem mörkuð var með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi ekki verið röng, að við höfum þurft að greiða tugi milljarða króna, ríkissjóður, heimilin og fyrirtækin, á þessu tímabili vegna þeirra háu vaxta sem við búum við.

Ég kalla eftir því, frú forseti, um leið og ég lýsi mig fúsan til samstarfs um að ræða þetta mál á vettvangi efnahags- og skattanefndar, að við förum að koma okkur niður á leið sem mun auðvelda okkur að gera úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja. Þetta má ekki tefjast lengur og sú skoðun verður að fara sérstaklega fram í ljósi þeirra áætlana sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í fjárlagafrumvarpi sínu

Ég sé það einfaldlega ekki ganga upp, frú forseti, að heimilin og fyrirtækin þoli meiri álögur en orðið er. Nóg er að samt og það sem ég velti upp svo maður sé alveg hreinskilinn í þessari umræðu er hvort enn frekari álögur, án þess að menn grípi til almennilegra leiðréttinga á skuldastöðu heimila og fyrirtækja, muni ekki leiða til þess að greiðsluviljinn í samfélaginu muni þverra enn frekar en orðið er, að fólk einfaldlega segi: Hingað og ekki lengra. Þá horfum við jafnvel upp á enn meiri fólksflótta úr landinu en orðið er. Allar þessar hugleiðingar hljóta að kalla á það að menn nái saman um róttækar aðgerðir til þess að vinda ofan af þeim mikla skuldavanda sem íslenskt þjóðfélag, ríkissjóður, sveitarfélög, heimili og fyrirtæki, er í. Menn verða að ná einhverri niðurstöðu í þeim efnum. Ég rifjaði upp í umræðu á þinginu um daginn hver staða Japans hefði verið fyrir 20 árum. Japan var þá stórskuldugt land, og stórskuldug fyrirtæki og heimili þar í landi. Þar var farið í ákveðið prógramm án þess að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimilanna og atvinnulífsins.

Hver er staðan í dag að 20 árum liðnum? Jú, þessi skuldavandi sem aldrei var unnið úr hefur leitt til þess að hagvöxtur hefur ekki verið neinn í Japan á þessu 20 ára tímabili og menn glíma enn í dag við sama mikla skuldavanda þar og fyrir 20 árum. Þess vegna er mikilvægt að við náum saman um það og að menn fari að horfa til þeirra tillagna sem við í Framsóknarflokknum, og reyndar þingmenn annarra flokka, höfum lagt fram um almennar aðgerðir til að leiðrétta alvarlega stöðu skuldugra heimila. Þar þarf samstillt átak banka, lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Menn gleyma í því reikningsdæmi öllu hvað það kostar að gera ekki neitt. Hvað kostar aðgerðaleysið eitt og sér? Hvað hefur aðgerðaleysi síðustu tveggja ára kostað okkur og samfélagið? Í hvaða stöðu værum við í dag ef við hefðum fyrir tæpum tveimur árum gripið til almennra og róttækra aðgerða á þessu sviði? Ég skal alveg viðurkenna að það var auðveldara á meðan við héldum utan um bankana og vorum að skipta þeim upp, en það var ekki gert þá. Ég tel í ljósi þeirra dæma sem ég hef rakið hér að framan að það verði með einhverjum hætti að ráðast í slíkar aðgerðir og ég hvet enn eina ferðina til þeirrar samstöðu á vettvangi þingsins. Það vill svo til að forustumenn Framsóknarflokks og Hreyfingar hafa óskað eftir fundi með fimm manna ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar vegna skuldavandans, að eiga fund með þeirri nefnd ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna, þar sem við færum með opnum hætti yfir slíkar leiðir og hvort við næðum samstöðu um slíkt.

Fyrir hönd Framsóknarflokksins í efnahags- og skattanefnd lýsi ég yfir fullum vilja til að ræða þetta mál á þeim vettvangi og vinna að því að menn nái vonandi að ráðast í almennilega úttekt á fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja og gera sér þá grein fyrir því hvað stefna (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar gagnvart skuldugum heimilum og fyrirtækjum á næsta ári mun þýða þegar kemur að vanskilum hjá þessum aðilum.