139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Andsvar mitt liggur aðallega í því að ábyrgðargjaldið er mismunur á lánshæfismati Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Sá mismunur gæti orðið neikvæður, þ.e. ef meiri líkur eru á að Reykjavíkurborg fari á hausinn en Orkuveitan gæti verið að borgin hefði lélegra lánshæfismat. Þá er spurning hvað gerist ef mismunurinn verður neikvæður, hvort Reykjavíkurborg eigi þá að borga Orkuveitunni fyrir að losna við ábyrgðina eða hvort hún eigi þá að fá lán eða ábyrgðargjald frá Orkuveitunni.

Mér finnst þetta allt saman vera mjög jákvætt. Menn þurfa að átta sig á mismuninum á vöxtunum sem Reykjavíkurborg getur fengið á markaði og þeim vöxtum sem Orkuveita Reykjavíkur getur fengið. Orkufyrirtæki — sérstaklega í hreinni orku og ef þau eru skynsamlega rekin — eru óskaplega öflugur og góður fjárfestingarkostur fyrir fólk og fjárfesta um allan heim. Ég get alveg séð fyrir mér að ábyrgðargjaldið verði ekkert voðalega hátt.