139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal mikla og öfluga baráttu sína í Icesave-málinu meðan við vorum að glíma við það og hann á heiður skilinn fyrir framgöngu sína í því.

Í grunninn er ég alveg sammála þeim athugasemdum og sjónarmiðum sem hv. þingmaður setti hér fram en ætli við verðum ekki einfaldlega að gera ráð fyrir því að fyrirhyggjan hafi verið svo mikil við setningu fjárlaga ársins 2010 að menn hafi séð það fyrir að við mundum ekki leggja þær byrðar sem í stefndi á herðar íslenskum skattgreiðendum á árinu 2010. Ég held að það sé að koma í ljós og þess vegna höfum við ekki haft þessar heimildir inni.