139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breyt. á XX. viðauka við EES-samninginn.

236. mál
[17:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir enn einu þingmáli sem ég er viss um að mun líka gleðja hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur vegna þess að ég tel að ýmis íslensk fyrirtæki geti haft af því fjárhagslegan ávinning þegar til framtíðar er horft. Þingsályktunartillagan felur í sér að leitað er heimilda til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010, um breytingu á XX. viðauka EES-samningsins um umhverfismál.

Með breytingunni er felld inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem felur í sér að koma á grunngerð fyrir landupplýsingar í Evrópubandalaginu. Þetta er INSPIRE-tilskipunin svokallaða. Megintilgangurinn er að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar í Evrópu og einna helst í þágu umhverfismála. Með landupplýsingum er átt við hvers kyns hnitsettar upplýsingar um fyrirbæri í umhverfinu, bæði náttúruleg og manngerð. Þessi tilskipun fjallar um það í hvaða formi þessum upplýsingum skuli miðlað, hvernig aðgengi að þeim skuli háttað og hvernig þær skuli samræmdar svo unnt sé að samnýta þær í þágu umhverfismála. Má segja að í henni felist reglur um það hvernig skipulag, upplýsingamiðlun og aðgengi landupplýsingagagna í rafrænu formi skuli háttað í framtíðinni.

Við upptöku tilskipunar í EES-samninginn var af hálfu okkar EFTA-ríkjanna gerð krafa um aðlögun að tryggt yrði að EES/EFTA-ríkin fengju jafnlangan tíma og ESB-ríkin fá til að innleiða skyldurnar sem tilskipunin leggur þeim á herðar. Það er áætlað að ný lög um grunngerð landupplýsinga veiti lagastoð fyrir INSPIRE-tilskipunina. Einstakir efnisþættir hennar verða hins vegar innleiddir í tímasettum áföngum allt til ársins 2019. Tilskipunin kemur til góða vegna skipulagsmála, viðbragða við náttúruhamförum, náttúruverndar og ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Ráðuneytið sem hefur umsjón með þessu máli, umhverfisráðuneytið, leggur það mat á málið að innleiðing þessarar tilskipunar hafi í för með sér verulegan samfélags- og fjárhagslegan ávinning á komandi árum. Þetta er eitthvað fyrir hv. utanríkismálanefnd að grafast fyrir um og komast að því hvort þetta geti ekki glatt ákveðna þingmenn sem sitja enn í salnum. (Gripið fram í.)

Þessi ávinningur mun fyrst og fremst koma fram í hagræðingu, í aukinni samvinnu og samnýtingu sem fylgir því að gögn verða aðgengilegri. Sömuleiðis mun þetta skera burt tvíverknað og koma í veg fyrir að margir aðilar innan stjórnsýslunnar vinni að öflun sömu upplýsinga. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var eins og þær þrjár sem ég hef mælt fyrir í dag tekin með stjórnskipulegum fyrirvara þar sem hún kallar á lagabreytingar. Með tillögunni óskar framkvæmdarvaldið eftir samþykki Alþingis fyrir breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar málefnalegri umræðu um tillöguna sleppir verði henni vísað til hv. utanríkismálanefndar.