139. löggjafarþing — 37. fundur,  29. nóv. 2010.

staðbundnir fjölmiðlar.

225. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu að ég vil meina.

Þetta mál er svo sem ekki nýtt og svo ég rifji það upp þá var það flutt að mig minnir árið 2004. Þá var 1. flutningsmaður þeirrar þingsályktunartillögu hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem ég veit að hæstv. menntamálaráðherra þekkir vel. Ég treysti því að hæstv. ráðherra muni í framhaldi af umræðunni taka vel í þetta enda erum við þó ekki að ganga lengra en að gera úttekt á stöðu staðbundinna miðla og framtíðarhorfum.

Ég vil minna á að þingmenn úr fleiri en einum flokki hafa komið hér að og miðað við þá umræðu sem nú hefur átt sér stað er nokkuð víðtækur stuðningur vil ég meina við að skoða stöðu þessara miðla. Við höfum heyrt það frá mörgum af þeim aðilum sem reyna að standa undir rekstri á þessum blöðum, ég er sérstaklega að tala um blöð hér, að hann hefur verið þyngri núna en oft áður. Hins vegar hefur mikilvægi þessara miðla sjaldan verið meira en dag. Ég hvet því hæstv. ráðherra eindregið enn og aftur að setja þennan starfshóp af stað vegna þess að þingsályktunartillagan sem ég hef vitnað hér í og er 1. flutningsmaður að hefur ekki enn komist á dagskrá þingsins. Hún mun vonandi gera það en á þá eftir að fara til nefndar og við vitum hversu ofboðslega langan tíma slíkt ferli tekur. Nú ríður á og reynir á frumkvæði hæstv. ráðherra að setja af stað hóp, sem vonandi sem flestir hagsmunaaðilar eiga sæti í, sem munu taka út stöðu þessara miðla. Þá gætum við vonandi fyrir mitt næsta ár tekið ákvörðun um framtíðarstefnumótun er snertir rekstrarumhverfi þessara miðla vegna þess að það er mjög mikilvægt eins og fram hefur komið í góðri umræðu.