139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

mótgreiðsluframlag ríkisins í Lífeyrissjóð bænda.

[15:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar. Þær staðfesta reyndar það sem ég sagði, að ekki væri lagaskylda fyrir því að standa við gerða samninga, en ég spurði hæstv. ráðherra hvort honum fyndist ekki eðlilegt engu að síður að virða slíka samninga sem hafa staðið í 40 ár og fara þá í samráð.

Hér hefur nokkuð verið talað um samráð. Það getur vel verið að menn hafi mismunandi skilning á samráði. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hélt hann trúnaðarfund með einhverjum í Bændahöllinni um það að til stæði að taka 9% niðurskurð á búvörusamninginn ef ekki fyndist önnur leið. Það varð auðvitað uppi ramakvein og menn hafa bæði sent bréf til ráðherra og farið á fund hæstv. ráðherra og eins til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þar fengum við bréf í hendur sem er undirritað annars vegar af framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins og hins vegar formanni Bændasamtaka Íslands 8. júlí þar sem þeir fara fram á viðræður. Bréfið er upp á eina fjóra liði þar sem þeir koma með tillögur að úrbótum — og þeir hafa ekki enn þá fengið svar. Það getur vel verið að samráðið sé fólgið í því að halda hótunarfundi um vorið og skila síðan afrakstri þess samráðs sem tillögum í fjárlagafrumvarpi svona undir jól. Ég hefði talið eðlilegra að gera það öðruvísi.

Í ágætri fyrirspurn hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um framfærslugrunn komu fram lágar tölur. Það eru sömu lágu tölurnar og bændur greiða laun af og er síðan reiknað endurgjald inn í Lífeyrissjóð bænda. Engu að síður telur hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin sig þess umkominn að skerða þessar tekjur um 9%. Ég spyr alla hæstv. ríkisstjórn hvort hún telji sig þess umkomna að lækka lægstu laun í landinu um 9% líka.