139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst varðandi ríkisábyrgðina á Lánasjóði landbúnaðarins er rétt að undirstrika að hún hverfur ekki eða gufar upp, þeir 24 milljarðar. Greitt verður af þeirri skuldbindingu árlega næstu árin, ég veit ekki hversu lengi það verður. En það sem vakti sérstaklega athygli mína varðandi það mál er að Íbúðalánasjóður virðist með einhverjum hætti hafa lent í sambærilegri stöðu og ríkissjóður í ríkisábyrgðamálinu vegna landbúnaðarins vegna þess sem upplýst var á fundi fjárlaganefndar og félags- og tryggingamálanefndar með fulltrúum Íbúðalánasjóðs um að þeir teldu að gamli bankinn hefði ekki haft heimild til að flytja þær eignir sem Íbúðalánasjóður átti yfir í nýja bankann.

Varðandi ríkisábyrgðina hins vegar og það sem verið er að leggja til varðandi Íbúðalánasjóð langar mig að heyra frá hv. formanni fjárlaganefndar hvort við séum að opna tiltekna heimild fyrir Íbúðalánasjóð sem honum sé ætlað að nýta á (Forseti hringir.) næstu vikum. Á þeim fundi sem ég gat um áðan var upplýst að síðustu helgi hefði átt að vinna nánari útfærslu á því. (Forseti hringir.) Liggur sú tillaga fyrir, þeir útreikningar?