139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[18:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir að loksins skuli vera komið fram frumvarp til laga um rannsóknarnefndir, það var orðið löngu tímabært.

Ég er með tvær spurningar sem varða málið. Í fyrsta lagi kemur fram í 1. gr. frumvarpsins um skipun rannsóknarnefndar, með leyfi forseta:

„Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir ályktun þar um.“

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður gæti farið í gegnum það hvernig hún sér fyrir sér að Alþingi samþykki ályktun þar um. Verður það almennt þannig að þingmenn geti sjálfir lagt fram ályktun eða, eins og mér skilst að sé í Noregi, að frumkvæðið að því að setja á stofn rannsóknarnefndir komi almennt frá eftirlits- og stjórnskipunarnefnd? Hvers konar fyrirkomulag væri að hennar mati eðlilegast? Það að undirbúa svona ályktun um skipan stjórn rannsóknarnefndar getur verið tiltölulega flókið eins og við sáum þegar verið var að skipa rannsóknarnefnd Alþingis.

Síðan er spurning númer tvö, sem ég held að sé mjög mikilvæg. Hún varðar 6. og 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um gagnaöflun og skýrslugjöf og réttarstöðu einstaklinga fyrir rannsóknarnefndinni. Í Danmörku hafa þeir verið með rannsóknardóm og þar var formaður nefndarinnar raunar alltaf dómari eða með réttindi dómara og þar höfðu viðkomandi einstaklingar réttarstöðu vitnis. Hér virðist hins vegar vera farin sú leið að það sé í raun valfrjálst fyrir fólk hvort það komi fyrir nefndina eða ekki. Hver er ástæðan fyrir því að ákveðið var að fara þessa leið en ekki þá leið sem var farin þegar rannsóknarnefnd Alþingis var sett á stofn á sínum tíma?