139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gagnrýndi það í ræðu minni að fræðimenn á sviði samkeppnisréttar, sem óskað var eftir að kæmu fyrir nefndina til að segja álit sitt á frumvarpinu, hefðu ekki fengið tækifæri til að segja skoðun sína og lýsa sjónarmiðum sínum hvað varðar frumvarpið. Það var mat meiri hlutans að það hefði litla þýðingu vegna þess að öll sjónarmið væru komin fram. Þrátt fyrir að ég hafi mikið álit á formanni nefndarinnar held ég að hún sé ekki svo forspá að geta lýst því yfir að þeir hafi ekkert haft neitt nýtt fram að færa í málinu.

Það kom fram við afgreiðslu málsins að við mótmæltum því að málið yrði afgreitt úr nefnd áður en þessi álit lægju fyrir og því var m.a. haldið fram af meiri hlutanum að málið þyrfti að komast til umræðu í annarri umferð hér í þinginu. Það veit hv. þingmaður og það finnst mér málsmeðferð sem er ekki við hæfi (Forseti hringir.) og engan veginn í takt við það góða samstarf sem við höfum átt við hv. þm. Lilju Mósesdóttur í öðrum málum í viðskiptanefnd. (Forseti hringir.) Ég ítreka að hún hefur haldið ágætlega á formennsku sinni í þeirri nefnd fram til þessa.