139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil koma inn á nokkur atriði og byrja kannski á því að hvetja hv. þingmann, sem gladdi mig mjög með áherslum sínum varðandi Helguvík og aðrar orkufrekar framkvæmdir, að berjast gegn því að öfgaöflin varðandi þessi verkefni nái yfirtökum á þeim og standa sig eins og hann hefur gert fram til þessa hvað þessi mikilvægu verkefni varðar, ekki bara fyrir Suðurkjördæmið heldur fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Ég hvet hann til dáða hvað þau mál varðar.

Ég vil koma að málefnum Keilis þar sem eru um 450 nemendur. Til viðbótar eru að mig minnir um 100 í fjarnámi. Einmitt Suðurnesin, eitt erfiðasta svæði menntunarlega séð, hv. þingmaður fór ágætlega yfir það. Nú sér þess hvergi stað í frumvarpinu eða tillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar að rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjunum, m.a. Keilis, verði tryggður þó að þess hafi verið getið í samkomulaginu í víkingaskipinu fyrir nokkrum vikum. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að mér fannst hann binda ákveðnar vonir við fund Suðurkjördæmisþingmanna og forsvarsmanna Keilis, hvort hann geti útlistað fyrir mér að við eigum eftir að sjá einhverjar útfærslur á næstunni, á næstu sólarhringum hvað Keili varðar í kjölfarið þessa fundar. Það var sem sagt fyrsta spurningin.

Í öðru lagi vil ég vita hvort hann styðji ekki m.a. formann fjárlaganefndar, sem lýsti því áðan yfir þegar ég spurði hann að því hvort störf sérfræðinganna tveggja sem getið er í samkomulaginu fyrrnefnda, þar sem er talað um tvo sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni á Suðurnesjunum að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf o.s.frv., yrðu ekki örugglega unnin á Suðurnesjunum en ekki hér í ráðuneyti menntamála, með fullri virðingu fyrir því góða ráðuneyti, að þau störf færu fyrst og fremst á Suðurnesin. (Forseti hringir.)