139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lendir í sömu gryfju og svo fjölmargir sem eiga erfitt með að skilja miðjustefnu. Ég var í prófkjörsbaráttu fyrir nokkrum árum og 18 eða 19 ára gömul stúlka af Suðurnesjunum var með. Hún hélt frábæra ræðu til að útskýra hvað það væri auðvelt að selja vinstri stefnu Vinstri grænna. Þeir voru bara á móti, það skildu það allir. Það þurfti ekki að halda langar ræður, þeir voru bara á móti. Það var jafnauðvelt að selja hægri stefnu, þú sagðir bara frelsi, frelsi, frelsi. Það skiptir engu máli óheft frelsi, það skildu allir.

Þegar þú ætlar að útskýra í hverju miðjustefna felst er það skynsemisstefna sem þarf að vega og meta í hvert sinn í ólíkum málum. Það er miklu erfiðara að útskýra það. Þess vegna skil ég vel hv. þingmann að ruglast alltaf öðru hvoru því að það er ekki svona einfalt eins og að vera til hægri eða til vinstri. Það er miklu flóknara að vera á miðjunni. Meðalvegurinn er ævinlega vandrataður það hefur komið víða fram í heimssögunni og það er erfitt að tolla á honum. Það getur vel verið að miðjuflokkur eins og Framsóknarflokkurinn eigi það til að sveiflast stundum of langt til hægri og hann getur líka átt það á hættu að sveiflast of langt til vinstri. En stefna okkar er ævinlega sú að vera á miðjunni.

Hvort við erum á móti að blanda saman einkarekstri og opinberum rekstri get ég í það minnsta sagt fyrir mitt leyti að ég er það ekki. Það er til að mynda norræn stefna. Ef við tökum t.d. orkufyrirtækin þá eru Norsk Hydro og Dansk Naturgas ein stærstu fyrirtæki á Norðurlöndum. Þau eru þannig fyrirtæki ef við höldum áfram umræðunni sem verið hefur hér á landi um orkufyrirtækin og eignarhald á þeim. Það er eins og við séum að tala hér um Kúbu eða einhver frjálshyggjuríki. (Forseti hringir.) Við erum bara að tala um norræna miðjustefnu og framsóknarmenn styðja hana.