139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þingmanni svarið. Hann kom einmitt inn á að það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvar mörkin liggja í skattheimtunni. Nú blikka öll ljós gagnvart því að við erum búin að ganga of langt. Tekjuskattar einstaklinga eru 5,1 milljarði undir áætlun þrátt fyrir minna atvinnuleysi. Það á að kveikja ákveðin ljós. Það hefur ekki verið minni fjárfesting í sögu lýðveldisins, hún dróst saman um 25,5% á síðasta ári, sem gerir það að verkum að þegar fyrirtækin — núna er tryggingagjaldið að skila tekjum inn í ríkissjóð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt að ekki skuli vera skilað til baka hluta af hækkuninni til fyrirtækjanna, til þess einmitt að geta fjárfest og skapað störf.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann: Finnst honum réttlætanlegt í stöðunni eins og hún er að ríkið skuli færa 2,7 milljarða af tekjum frá sveitarfélögum í ríkissjóð í þeirri stöðu sem mörg sveitarfélögin eru? Af því að hv. þingmaður er varaformaður samgöngunefndar, deilir hann ekki áhyggjum mínum (Forseti hringir.) af að færa þessa 2,7 milljarða frá sveitarfélögunum til ríkisins?